Sinisa Mihajlovic, fyrrum landsliðsþjálfari Serbíu, hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri AC Milan. Þetta var tilkynnt í morgun, skömmu eftir að ljóst varð að Filippo Inzaghi hafði verið sagt upp störfum.
Mihajlovic er 46 ára gamall og fyrrum varnarjaxl í júgóslavneska landsliðinu. Hann skrifaði undir tveggja ára samning en síðast var hann knattspyrnustjóri Sampdoria.
Undir stjórn Inzaghi varð AC Milan í tíunda sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar, 35 stigum á eftir meisturum Juventus. Liðið vann aðeins þrettán leiki allt tímabilið.
Mihajlovic lék með Roma, Sampdoria, Lazio og Inter á löngum ferli sínum en hóf þjálfaraferil sinn sem aðstoðarmaður Roberto Mancini hjá Inter. Hann hefur síðan stýrt Bologna, Catania, Fiorentina og nú síðast Sampdoria.
Mihajlovic tekur við AC Milan

Tengdar fréttir

Búið að reka Inzaghi frá AC Milan
Stýrði liðinu í eitt ár en frammistaða liðsins var langt undir væntingum.