„Ég vil miklu frekar spila á gervigras en grasi,“ segir Ólafur Jóhannesson, þjálfari Valsmanna í Pepsi-deild karla, aðspurður um áætlanir félagsins að leggja gervigras á aðalvöll félagsins.
Ólafur var gestur í Borgunarmörkunum á Stöð 2 Sport í kvöld. Valsmenn eru meðal þeirra fjögurra liða sem komið er í undanúrslit en dregið verður á morgun.
Morgunblaðið greindi frá því um miðjan mánuðinn að Valsmenn væru að skoða möguleikann á að leggja gervigras á völlinn. Félagið á inni gervigrasvöll frá Reykjavíkurborg vegna samnings sem gerður var við borgina á sölu lands sem var áður í eigu Vals.
Fögnuðu Íslandsmeistaratitli í Laugardalnum
„Þetta eru einhver peningamál,“ sagði Ólafur í Borgunarmörkunum aðspurður um ástæður þess að skipta úti grasi fyrir gervigras. Hann sagðist ekki mótmæla þeim fyrirætlunum.
„Nei, ég er það nú ekki. Ég ræð ekki öllu,“ sagði þjálfarinn léttur. Aðspurður hvenær von væri á nýja grasinu sagðist Ólafur eiga von á því síðar í mánuðinum. Reiknað er með því að Valsmenn muni í kjölfarið spila heimaleiki sína á Laugardalsvellinum.
Valur kann ágætlega við sig þar en liðið fagnaði einmitt Íslandsmeistaratitlinum í Laugardalnum sumarið 2007 þar sem framkvæmdir stóðu yfir á Hlíðarenda.

