Íslenski boltinn

Þórður Steinar orðinn leikmaður Þórs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórður Steinar gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Þór gegn Þrótti á morgun.
Þórður Steinar gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Þór gegn Þrótti á morgun. vísir/stefán
Varnarmaðurinn Þórður Steinar Hreiðarsson er genginn í raðir Þórs frá Val.

Þórður er búinn að fá leikheimild með Þórsurum og gæti leikið sinn fyrsta leik með Akureyrarliðinu þegar það tekur á móti Þrótti í 12. umferð 1. deildar á morgun.

Þórður var í byrjunarliði Vals í 0-3 tapinu fyrir Leikni í 1. umferð Pepsi-deildarinnar en eftir komu danska miðvarðarins Thomasar Christensen hefur hann ekkert spilað, fyrir utan einn hálfleik í 2-2 jafntefli gegn Víkingi.

Þórður lék áður með Breiðabliki og Þrótti hér á landi en auk þess hefur hann leikið í Færeyjum og Sviss.

Þór er í 5. sæti 1. deildar með 18 stig, sex stigum frá 2. sætinu. Þórsarar hafa tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum svo þeim veitir ekki af liðsstyrk.

Þá eru nágrannar Þórs, KA-menn, búnir að fá króatíska miðjumanninn Josip Serdarusic til liðsins. Þetta kemur fram á heimasíðu KA.

Serdarusic er 28 ára miðjumaður sem lék síðast með NK Dugopolje í heimalandinu.

Hann kemur til landsins á sunnudaginn og mun því væntanlega leika sinn fyrsta leik með KA gegn Fjarðabyggð á Akureyrarvelli næsta fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×