Íslenski boltinn

Breiðablik segir Guðjón Pétur ekki til sölu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Pétur fagnar marki með Breiðabliki.
Guðjón Pétur fagnar marki með Breiðabliki. Vísir/Ernir
Arnar Grétarsson segir afar ólíklegt að Breiðablik muni taka tilboði Vals í Guðjón Pétur Lýðsson.

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, staðfesti við Fótbolta.net í dag að félagið hefði lagt fram tilboð í kantmanninn öfluga hjá Breiðabliki.

Arnar hafði ekki heyrt af málinu þegar Vísir hafði samband við hann í dag en taldi engu að síður afar ólíklegt að félagið myndi taka tilboðið til greina.

„Guðjón Pétur er að mínu mati afar mikilvægur hlekkur í liðinu. Við ætlum að styrkja okkur í júlí en ekki selja bestu leikmenn okkar,“ segir Arnar. „Félögum er auðvitað frjálst að gera tilboð en ég á ekki von á því að það verði samþykkt.“

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, staðfestir við Vísi að Valur hafi sent Breiðabliki tilboð í Guðjón Pétur en því hafi verið svarað með þeim skilaboðum að leikmaðurinn sé ekki til sölu.

Þorsteinn Már Ragnarsson, leikmaður KR, hefur verið sterklega orðaður við Breiðablik en Arnar og Eysteinn segja báðir að óvíst sé hvort að hann sé á leið í Kópavoginn.

„Við höfum spurst fyrir um hann eins og önnur lið,“ sagði Eysteinn. „En hann er leikmaður KR og þangað til að opnað verður fyrir félagaskipti 15. júlí vitum við ekki hvort hann verði það áfram eða ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×