Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var glaður í leikslok eftir sigur hans manna á Val í kvöld.
"Við byrjuðum þetta svolítið hægt en unnum okkur vel inn í leikinn og komust sanngjarnt yfir," sagði Heimir.
"Leikurinn opnaðist fyrir okkur í seinni hálfleik og þá gerðum við mistök, fórum upp með vörnina og þeir refsuðu okkur. En við sýndum karakter í seinni hálfleik og náðum að skora sigurmarkið," sagði Heimir sem var sáttur með varnarleik sinna manna.
"Mér fannst við loka mjög vel á Valsmennina og mér fannst þeir ekki skapa sér mikið."
Bjarni Þór Viðarsson skoraði sigurmark FH og átti mjög góðan leik. Heimir var að vonum ánægður með hans frammistöðu í kvöld.
"Hann hefur verið að spila fremstur á miðjunni og við vildum styrkja miðsvæðið í þessum leik og nota Atla Guðnasonar úti á vinstri kantinum á móti Baldvini Sturlusyni sem er ekki búinn að spila mikið í sumar.
"Mér fannst það ganga vel og Atli Guðna var mjög hættulegur eftir því sem leið á leikinn," sagði Heimir.
Einhverjir FH-ingar báðu rangstöðu í marki Vals en Heimir sagði línuvörðurinn hefði tekið rétta ákvörðun að halda flagginu niðri.
"Ég var akkúrat í línu og þetta var ekki rangstaða. Þetta var hárrétt hjá línuverðinum og við vorum bara klaufar, það var engin pressa á manninum með boltann og vörnin okkar átti að síga til baka."
Með sigrinum náði FH þriggja stiga forystu á KR og sex stiga forystu á Val.
"Auðvitað er fínt að við skyldum vinna Val og KR skyldi tapa. Það er gott fyrir okkur. En við þurfum að halda áfram og næst er erfiður leikur á móti ÍA," sagði Heimir að lokum.
