Haukur Páll endurnýjaði í dag samning sinn við Val sem nær nú út árið 2018. Haukur Páll, sem er 28 ára gamall, hefur verið í Val í fimm ár eða síðan að hann kom þangað frá Þrótti árið 2010.
„Haukur Páll gekk til liðs við Val árið 2010 og hefur síðan verið ómissandi hlekkur í Valsliðinu. Haukur Páll er fyrirliði meistaraflokks Vals, einn besti alhliða miðjumaður deildarinnar og óumdeildur leiðtogi innan Valsliðsins," segir í fréttatilkynningu frá Knattspyrnufélaginu Val.
Haukur Páll er á sínu þriðja ári sem fyrirliði Valsliðsins en hann tók við fyrirliðabandinu af Atla Sveini Þóarinssyni fyrir 2013-tímabilið.
„Knattspyrnudeild Vals lýsir yfir mikilli ánægju með þessa endurnýjun á samningi Hauks Páls. Um er að ræða leikmann sem var eftirsóttur af liðum erlendis en kýs að halda tryggð við sitt félag sem er mikið fagnaðarefni," segir ennfremur í fyrrnefndri fréttatilkynningu.
Haukur Páll hefur leikið 97 leiki fyrir Val í úrvalsdeild karla og það styttist því óðum í hundraðasta deildarleik hans með félaginu.
