Hagvöxtur frá apríl og út júní var 7 prósent á Indlandi á síðasta ári og dróst saman um 0,5 prósentustig milli ársfjórðunga samkvæmt upplýsingum frá þarlendum yfirvöldum.
Samkvæmt frétt BBC eru Indland og Kína þau hagkerfi sem vaxa hraðast en hagvöxtur í Kína var einnig 7 prósent á ársfjórðungnum en hefur dregist saman.
Eftir hrun hlutabréfa í Kína og hægari hagvöxt þar í landi hafa fjárfestar vonast til þess að Indland myndi drífa áfram hagvöxt í heiminum.
Sumir greiningaraðilar hafa þó áhyggjur af því að tölurnar um hagvöxt Indlands séu ekki fyllilega réttar. Haft er eftir Shilan Shah hjá Capital Economics að landsframleiðslan á Indlandi sé ofmetin og ekki í samræmi við fjölmarga aðra hagvísa.
Hvort hagvöxtur aukist á næsta ársfjórðungi mun að miklu leyti velta á veðurfari. Gott veður og næg rigning ætti að tryggja góða uppskeru sem hefur í för með sér aukna einkaneyslu þeirra Indverja sem starfa í landbúnaði samkvæmt frétt BBC.
Hagvöxtur á Indlandi dregst saman
