Fótbolti

Markvörður Barcelona frá næstu vikurnar

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Claudio Bravo, markvörður Barcelona.
Claudio Bravo, markvörður Barcelona. Vísir/getty
Umboðsmaður Claudio Bravo, markmanns Barcelona, staðfesti í gær að skjólstæðingur sinn yrði frá næstu þrjár vikurnar vegna meiðsla. Bravo meiddist á æfingu á dögunum og staðfesti umboðsmaður hans í samtali við útvarpsrás í Síle að hann yrði frá næstu vikurnar.

Bravo sem gekk til liðs við Barcelona síðastliðið sumar missir því af leikjum gegn Atletico Madrid, Levante, Celta Vigo og Las Palmas en hann er markvörður liðsins í deildarkeppninni.

Þýski markvörðurinn Marc-Andre ter Stegen hefur leikið leiki liðsins í spænska bikarnum og Meistaradeildinni en hann mun leika fyrstu leiki sína fyrir félagið í spænsku úrvalsdeildinni næstu vikurnar.

Barcelona sem hefur unnið báða leiki sína til þess í spænsku úrvalsdeildinni verður ásamt Bravo án þeirra Gerard Pique og Dani Alves í leiknum gegn Atletico Madrid.

Leikur Atletico Madrid og Barcelona verður í beinni útsendingu á laugardaginn á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD en flautað verður til leiks í Madríd klukkan 18.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×