Viðskipti erlent

Einn og hálfur milljarður notar Facebook í hverjum mánuði

Samúel Karl Ólason skrifar
Mark Zuckerberg, stofnandi og framkvæmdastjóri Facebook.
Mark Zuckerberg, stofnandi og framkvæmdastjóri Facebook. Vísir/EPA
Í hverjum mánuði nota rúmlega einn og hálfur milljarður manna Facebook. Rúmur milljarður notar samfélagsmiðilinn á hverjum degi og þá er rúmlega átta milljarða sinnum horft á myndbönd á Facebook.

Hlutabréf í Facebook hækkuðu um fimm prósent í gær og náðu sögulegu hámarki. Það gerðist eftir að fyrirtækið birti ­ársfjórðungsreikninga á miðvikudaginn, þar sem fram koma að tekjur höfðu hækkað um rúm ellefu prósent.

Í tilkynningu sagði Mark Zuckerberg, stofnandi og framkvæmdastjóri Facebook, að í gegnum verkefnið Internet.org, hefði Facebook útvegað 15 milljónum manna nettengingu, sem ekki hafði kost á því áður. Í tilkynningunni birti hann einnig mynd sem sýndi notendafjölda helstu miðla sem tengjast Facebook.

Þá var í gær kynnt sú nýjung að notendur Facebook geta nú deilt lögum af Spotify og iTunes með Music Stories á Facebook, þar sem aðrir notendur geta hlustað á hluta laganna.

Þetta er fyrsta skref Facebook í átt að tónlistarspilun.

Ársfjórðungsuppgjör Facebook sýnir að virkum notendum miðilsins í hverjum mánuði hefur fjölgað um fjórtán prósent á milli ára og að um 90 prósent notenda skoða Facebook í snjalltækjum.

Daglegir notendur fóru í fyrsta sinn yfir milljarðinn og voru 1,01 milljarður. Það er aukning um 17 prósent á milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×