Innlent

Slæmt fyrir komandi kynslóðir ef útlendingar kaupa bankana

Höskuldur Kári Schram skrifar
Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis segir að Íslendingar eigi alls ekki að sækjast eftir því að fá erlenda aðila til að fjárfesta í bönkum hér á land. Skiptar skoðanir eru málið meðal stjórnarþingmanna en fjármálaráðherra telur að erlend fjárfesting geti þjónað íslensku fjármálakerfi.

Þrír lífeyrissjóðir hafa sýnt áhuga á því að kaupa Arionbanka sem er að mestu í eigu kröfuhafa Kaupþings. Ef ríkið tekur svo yfir Íslandsbanka þykir líklegt að sá banki verði seldur næst.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur að það væri gott fyrir íslenska fjármálamarkað að fá erlenda fjárfesta.

„Við höfum aldrei fengið stóra erlenda fjárfestingu á fjármálamarkaðinn hjá okkur og það yrði að mínu mati styrkleikamerki fyrir markaðinn ef að erlendir aðilar myndu sýna því áhuga að kaupa hlut í fjármálafyrirtæki,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Frosti Sigurjónsson þingmaður Framsóknarflokks og formaður efnahags - og viðskiptanefndar Alþingis er hins vegar ekki sammála þessu.

„Að mínu mati væri það stórkostleg mistök. Alveg sérstaklega vegna þess að ólíkt öðrum fyrirtækjum þá eru bankar í þeirri stöðu að öll fyrirtæki þurfa að vera í viðskiptum við þá. Þeir skila miklum hagnaði og ef að sá hagnaður þarf að breytast úr krónum yfir í gjaldeyri og renna úr landi í formi arðs þá er það mjög óheppilegt fyrir okkur til lengri tíma litið Það gæti verið skammgóður vermir en til lengri tíma litið mjög óhagkvæmt fyrir komandi kynslóðir,“ segir Frosti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×