Þýska flugfélagið Lufthansa hefur aflýst hundruðum fluga sem voru á áætlun félagsins á morgun. Ástæðan er deila fyrirtækisins og starfsmanna þess um kaup og kjör. Um málið er fjallað á vef Bloomberg.
Félag starfsmanna félagsins hafði betur í deilu fyrir dómstólum og munu verkföll þeirra því halda áfram þar til deilan leysist. Tæplega 900 flug áttu að fara á loft á morgun en þeim hefur verið aflýst en tæplega 4.000 flugum hefur verið aflýst frá því að aðgerðir starfsmanna hófust þann 6. nóvember. Áður höfðu aðgerðir flugmanna undanfarna átján mánuði sem höfðu áhrif á um 13.000 flug.
„Við munum halda baráttu okkar áfram eins lengi og við þurfum,“ segir Carsten Spohr forstjóri Lufthansa. „Við getum ekki gert neinar málamiðlanir í þessum efnum.“
Deilan snýst um markmið Spohr að gera Lufthansa að lággjaldaflugfélagi sem gæti keppt við Ryanair og EasyJet. Margir stjórnendur félagsins eru ósammála áætlunum Spohr og hafa sumir þeirra gripið til þess ráðs að segja upp sökum þessa. Það er hins vegar mat forstjórans að þó áætlanir hans hafi tap í för með sér nú muni það borga sig upp að breytingum loknum.
