Körfubolti

Verða Hörður Axel og félagar fyrstir til að vinna lið Israel Martin?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson lét ekki Pau Gasol vaða yfir sig á Eurobasket.
Hörður Axel Vilhjálmsson lét ekki Pau Gasol vaða yfir sig á Eurobasket. Vísir/EPA

Danska liðið Bakken Bears er einn eitt af átta ósigruðum liðum í FIBA Europe Cup í körfubolta en í kvöld fá þeir Tékklandsmeistara CEZ Nymburk í heimsókn.

Þjálfari Bakken Bears er einmitt Íslandsvinurinn Israel Martin sem gerði frábæra hluti með lið Tindastóls á síðustu leiktíð en nýliðarnir fóru þá alla leið í lokaúrslitin um Íslandsmeistaratitilinn.

Hörður Axel Vilhjálmsson gekk til liðs við tékknesku meistarana á dögunum og ætlar örugglega að gera sitt til að hjálpa Nymburk-liðinu að verða fyrsta liðið til að vinna Bakken Bears í Evrópukeppninni í vetur.

Bakken Bears vann tveggja stiga sigur í fyrri leik liðanna í Tékklandi, 66-64, en það er eina tap Nymburk í Evrópukeppninni. Hörður Axel skoraði 3 stig, tók 3 fráköst og gaf 2 stoðsendingar á 20 mínútum í þeim leik.

Hörður Axel hefur hækkað stigaskor sitt lítillega í hverjum leik og er að komast betur inn í þetta hjá Tékkunum. Besta leikinn átti Hörður á móti Hibernia þegar hann var með 5 stig og 7 stoðsendingar.

Aðeins sjö önnur lið en Bakken Bears hafa enn ekki tapað leik eftir fjórar umferðir í FIBA Europe Cup en þau lið eru frá Frakklandi (2 lið), Belgíu, Þýskalandi, Tyrklandi, Lettlandi og Úkraínu.

Bæði Bakken Bears og Nymburk hafa þegar tryggt sér sæti í 32 liða úrslitunum því hin tvö liðin í riðlinum eiga ekki möguleika á því að ná þeim. Það verður því meira spilað upp á stoltið í kvöld.

Það verður samt fróðlegt að sjá hvort Hörður Axel og félögum tekst að stöðva sigurgöngu strákanna hans Israels Martin í Evrópukeppninni.

Leikurinn hefst klukkan 17.15 að íslenskum tíma í Vejlby-Risskov Hallen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×