Körfubolti

Martin fór á kostum í öðrum sigri Brooklyn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, fer frábærlega af stað á nýju tímabili í háskólaboltanum í Bandaríkjunum.

Hann var næst stigahæstur með fjórtán stig og sjö stoðsendingar í fyrsta leik tímabilsins og gaf þar stoðsendinguna í dramatískri sigurkörfu.

Martin gerði enn betur í nótt og skoraði 23 stig þegar LIU Brooklyn vann Maine-háskólann á heimavelli, 84-79.

Hann opnaði leikinn með fallegu sniðskoti og hélt svo áfram að skora. Martin gekk reyndar illa fyrir utan þriggja stiga línuna og brenndi af öllum fjórum skotum sínum þar.

Martin aftur á móti hitti úr sjö af fjórtán skotum sínum í teignum og níu af ellefu af vítalínunni. Þá stal hann tveimur boltum.

Kraftframherjinn Jerome Frink var stigahæstur hjá LIU í leiknum með 25 stig, en liðið er nú búið að vinna fyrstu tvo leiki sína á tímabilinu.

Martin var kjörinn nýliði ársins í NEC-deildinni í fyrra og virðist bara vera að bæta í.

Í spilaranum hér að ofan má sjá það helsta úr leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×