Körfubolti

Tímabært að geta skotið til baka á Hauk Helga og Peter

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson, Hlynur Bæringsson, Ægir Þór og Raggi Nat mæta Hauki Helga og Peter Öqvist í 8-liða úrslitum.
Jakob Örn Sigurðarson, Hlynur Bæringsson, Ægir Þór og Raggi Nat mæta Hauki Helga og Peter Öqvist í 8-liða úrslitum. Fréttablaðið/Daníel
Sundsvall Dragons og LF Basket, tvö af þremur Íslendingaliðum sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta, mætast í kvöld í fyrstu viðureign liðanna í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar. LF Basket hafnaði í fjórða sæti og Sundsvall því fimmta og því hafa LF-menn heimaleikjaréttinn, en með því spilar Haukur Helgi Pálsson. Hlynur Bæringsson, Jakob Örn Sigurðarson, Ægir Þór Steinarsson og Ragnar Nathanaelsson eru allir á mála hjá Drekunum.

Haukur Helgi hefur haft gott tak á félögum sínum úr landsliðinu, en LF vann alla fjóra leiki liðanna í deildarkeppninni.

„Þetta er alveg komið gott. Nú er kominn tími á að vinna þá til að geta skotið til baka á Hauk,“ segir Jakob Örn léttur við Fréttablaðið, en hann var í rútunni á leiðinni til Luleå þegar blaðamaður náði í hann í gær.

LF vann fyrstu tvo leikina á móti Sundsvall í deildinni með samtals 23 stiga mun en hinir tveir unnust með tveimur og þremur stigum.

„Þetta hefur verið jafnara undanfarið þannig að við teljum okkur eiga góða möguleika. Þetta verður auðvitað erfitt en ég held þetta verði jöfn sería og margir spennandi leikir. Það eru lokakaflarnir sem gætu skipt sköpum,“ segir Jakob, en þjálfari LF Basket er Peter Öqvist, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands.

„Það er alveg nóg af hlutum í þessari seríu sem hægt er að nota til að hvetja sig áfram. Það eru auðvitað þessi fjögur töp fyrir LF í deildinni og svo að vera að spila á móti Hauki og Peter,“ segir Jakob.

Haukur Helgi hefur spilað mjög vel fyrir LF í vetur. Hann spilaði 30 mínútur að meðaltali leik, skoraði 12,9 stig, tók 4,9 fráköst og gaf 3,4 stoðsendingar. Þá er hann með 44,3 prósent nýtingu í þriggja stiga skotum sem er það langbesta hjá liðinu.

„Ég myndi segja að Haukur Helgi væri einn af þremur bestu mönnum LF. Þeir eru með tvo Bandaríkjamenn sem þeir leita mikið til í sókninni en Haukur gerir svo mikið af hlutum,“ segir Jakob um landsliðsfélaga sinn.

„Haukur skorar, tekur fráköst og hefur verið duglegur að gefa stoðsendingar í allan vetur. Spilið fer svolítið í gegnum Hauk sem er að taka réttar ákvarðanir. Hann er mjög mikilvægur fyrir LF í sókninni og sérstaklega í vörn þar sem hann er stór en hreyfanlegur og getur valdað marga menn. Peter vissi upp á hár hvað hann var að gera þegar hann fékk Hauk til sín,“ segir Jakob.

Sjálfur hefur Jakob spilað vel fyrir Sundsvall eins og oft áður, en hann skoraði 16,1 stig að meðaltali í leik. Jakob var ekki með íslenska landsliðinu í undankeppni EM 2015 þar sem hann gaf ekki kost á sér, en hann er í Berlínarhug núna.

„Ég er ekki búinn að skoða þetta mikið, en eins og staðan er núna þá er ég klár. Hugurinn leitar núna til Berlínar,“ segir Jakob Örn Sigurðarson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×