Hvað gerist þegar verðandi bóndi, garðyrkjumaður og starfsmenn í bókabúð frá Suðureyri koma saman? Jú, þeir sigra Músíktilraunir 2015. Þessi ferskasta sveit landsins um þessar mundir lýsir upplifuninni sem súrrealískri en á ákveðnum tímapunkti var ekki útlit fyrir að þeir myndu keppa yfir höfuð.
„ Við misstum gítarleikarann okkar til Frakklands í námsferð í blálokin svo við urðum að redda okkur öðrum á ögurstundu. Það gekk sem betur fer eftir og hljóp Bolvíkingurinn Bjarni Kristinn Guðmundsson í skarðið,“ segir Pétur Óli Þorvaldsson bassaleikari sveitarinnar.
Hljómsveitin lagðist því á eitt og nýtti næturnar fyrir keppni til að æfa sig. Allt var lagt undir og stóðu þeir uppi sem sigurvegarar í Hörpu á laugardaginn var. „Við áttum ekki von á þessu, þorðum ekki einu sinni að hlusta á böndin sem komu til greina á lokakvöldinu, þau voru svo góð,” segir Pétur. Úrslitin komu þeim því rækilega á óvart. „Í gleðivímunni ákváðum við að fá okkur allir tattú saman. Kannski verður það Bjarni besti," segir Pétur flissandi.
Næst á dagskrá sveitarinnar er að troða upp á Aldrei fór ég suður á Ísafirði um páskana. „Ég veit það ekki, ætli við verðum ekki að flytja?” segir Pétur aðspurður um framhaldið og bætir spenntur við: „Kannski til Reykjavíkur, kannski til Los Angeles, þetta á eftir að koma í ljós.“
Stórhuga sveitastrákar frá Suðureyri stálu senunni

Tengdar fréttir

Icelandair og Reykjavíkurborg styðja íslenska tónlist
Icelandair og Reykjavíkurborg verða aðalstyrktaraðilar Iceland Airwaves, Músíktilrauna og Reykjavíkur Loftbrúar næstu þrjú árin.

Músíktilraunir í þrjátíu og þrjú ár
“Líkt og djúsí konfektkassi ár hvert og allir molarnir eru góðir,” segir Ása Hauksdóttir framkvæmdastjóri Músíktilrauna.