Innlent

Einkaleyfi Íslandspósts afnumið á haustþingi

fanney birna jónsdóttir skrifar
Íslandspóstur hefur einkarétt á póstþjónustu en hefur verið til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu um árabil.
Íslandspóstur hefur einkarétt á póstþjónustu en hefur verið til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu um árabil. Fréttablaðið/Arnþór
Ólöf Nordal innanríkisráðherra vill afnema einkarétt Íslandspósts ohf. á póstþjónustu og hyggst leggja fram frumvarp þess efnis á haustþingi. Þetta kom fram í máli ráðherrans í sérstakri umræðu á Alþingi í gær um málefni Íslandspósts. Þá telur Ólöf að selja eigi fyrirtækið; ríkið eigi ekki að vera að vasast í einkarekstri.

Ólöf Nordal
Málhefjandi var Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sem sagði kveikjuna vera umfjöllun um meint brot Íslandspósts á samkeppnismarkaði, en fyrirtækið hefur verið til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu um árabil. Þar hefur Íslandspóstur verið sakaður um að nýta þann hluta rekstursins sem ríkið hefur gefið fyrirtækinu einkarétt á að sinna til að niðurgreiða samkeppnisrekstur þess.

Guðmundur ræddi einnig fyrirkomulag póstþjónustu í víðara samhengi og sagði lög þess efnis bera þess vitni að hafa verið skrifuð í veröld þar sem engin tölvupóstsamskipti ættu sér stað.

Ólöf sagði vinnu hafna í ráðuneytinu til að afnema einkarétt á póstþjónustu, vegna tilskipunar ESB þess efnis. Skilgreina þurfi grunnpóstþjónustuna og hvernig eigi að sinna henni. Að öðru leyti eigi að leyfa samkeppni að njóta sín, slíkt sé til hagsbóta fyrir neytendur. Hún áréttaði þó að hlutabréf ríkisins í Íslandspósti væru á forræði fjármálaráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×