Enski boltinn

Alaba: Guardiola endurhannaði fótboltann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pep Guardiola.
Pep Guardiola. vísir/getty
David Alaba, leikmaður Bayern München, segir magnað að æfa undir stjórn Pep Guardiola hjá þýsku meisturunum og að hann hafi endurhannað fótboltann með sinni einstöku hugmyndafræði.

Bayern er búið að vinna þýsku deildina tvö ár í röð undir stjórn Spánverjans og vonast til að vinna Meistaradeildina í ár áður en Pep kveður og heldur til Manchester.

„Þjálfarinn er mjög kröfuharður en það er magnað að æfa undir hans stjórn. Það er eins og hann hafi endurhannað fótboltann,“ sagði Alaba á fréttamannafundi fyrir leik Bayern og Juventus í Meistaradeidlinni sem fram fer í kvöld.

„Hann hugsar um fótbolta 24 tíma á dag og er alltaf að útskýra fyrir okkur hvernig hann sér boltann, hvernig best sé að sækja, hvernig best er að verjast og hvernig við eigum að spila boltanum.“

„Þar sem hann er á þriðja ári hérna skiljum við hann betur. Við hefðum aldrei náð þessum árangri án hans. Það sjá allir,“ sagði David Alaba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×