Handbolti

Þjálfari Veszprém: Aron spilaði sinn besta leik í vetur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron átti frábæran leik gegn Motor Zaporozhye.
Aron átti frábæran leik gegn Motor Zaporozhye. vísir/afp
Aron Pálmarsson fór mikinn þegar Veszprém rúllaði yfir Motor Zaporozhye, 41-28, í seinni leik liðanna í 12-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta í gær.

Íslenski landsliðsmaðurinn skoraði sex mörk og var næstmarkahæstur í liði Veszprém sem vann einvígið samanlagt 70-52. Ungverska liðið mætir Vardar Skopje í 8-liða úrslitunum.

„Vörnin okkar var lykilinn að sigrinum. Þeir spiluðu mjög góðan sóknarleik fyrstu 10 mínúturnar og komu okkur á óvart með nokkrum leikkerfum.

„En eftir það styrktist vörnin okkar og við skoruðum mörg mörk eftir hraðaupphlaup,“ sagði Xavier Sabaté, þjálfari Veszprém, eftir leikinn í gær. Hann hrósaði Aroni einnig í hástert fyrir hans frammistöðu.

„Þetta var besti leikur Arons í sókninni í vetur,“ sagði Sabaté um Hafnfirðinginn öfluga sem hefur skorað 41 mark í Meistaradeildinni á tímabilinu.

Horfa má á seinni leik Veszprém og Motor Zaporozhye á heimasíðu EHF, eða með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×