Körfubolti

Helena með þrennu að meðaltali í oddaleikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Vísir/Vilhelm
Helena Sverrisdóttir spilaði tvo oddaleiki með Haukum áður en hún fór út í nám en þeir voru báðir á móti Stúdínum og báðir á Ásvöllum.

Helena var með þrennu að meðaltali í þessum leikjum sem Haukaliðið vann með samtals 36 stigum eða 18 stigum að meðaltali í leik.

Haukarnir lögðu grunn að báðum sigrunum með frábærri byrjun en Haukastelpurnar unnu fyrsta leikhlutann 24-8 í leiknum 2006 og 21-13 í leiknum árið eftir. Haukarnir voru 23 stigum yfir í hálfleik 2006 og 16 stigum yfir í hálfleik í leiknum árið 2007.

Meðaltöl Helenu í oddaleikjunum tveimur voru 21,0 stig, 10,5 fráköst og 11,5 stoðsendingar.

Helena var með 25 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar í 91-77 sigri á ÍS í þriðja leik liðanna í undanúrslitum sem fór fram 29. mars 2006. Þá þurfti bara að vinna tvo leiki til þess að komast í lokaúrslitin.

Megan Mahoney var með 30 stig og 15 fráköst í liði Hauka og Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 10 stig og stal 4 boltum.

Helena var með 17 stig, 12 fráköst, 14 stoðsendingar og 5 stolna bolta í 81-59 sigri á ÍS í fimmta leik liðanna í undanúrslitum sem fór fram 31. mars 2007.

Ifeoma Okonkwo skoraði 30 stig fyrir Hauka og Kristrún Sigurjónsdóttir var með 16 stig en hún hitti úr öllum þremur þriggja stiga skotum sínum.

Leikur Hauka og Grindavíkur fer fram í Schenkerhöllinni á Ásvöllum og hefst klukkan 19.15 í kvöld en hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3 og Stöð 2 Sport HD 3.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×