Lífið

Hættu öllu sem þú ert að gera: John Oliver tekur fyrir Ísland og Sigmund Davíð

Bjarki Ármannsson skrifar
"Valdamestir á eftir forsætisráðherranum á Íslandi eru einmitt náunginn sem sér um fiskinn, brennivínsráðherra, álfar og hver sem á lopapeysu og er í stjórnmálastuði.“
"Valdamestir á eftir forsætisráðherranum á Íslandi eru einmitt náunginn sem sér um fiskinn, brennivínsráðherra, álfar og hver sem á lopapeysu og er í stjórnmálastuði.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, var til umfjöllunar í nýjasta þætti breska háðfuglsins John Oliver, sem reglulega tekur fyrir málefni líðandi stundar á sprenghlægilegan hátt.

Sigmundur hefur sem kunnugt er verið í kastljósi fjölmiðla ekki aðeins hér á landi heldur um heim allan í kjölfar þess að fjallað var um tengsl hans við aflandsfélagið Wintris sem lýsti yfir rúmlega 500 milljóna kröfu í föllnu bankana. Fór svo að Sigmundur sagði af sér sem forsætisráðherra í síðustu viku.

Oliver gerir sér sérstaklega mat úr viðtali sænska fréttamannsins Sven Bergman við Sigmund, sem öðlast hefur heimsfrægð frá því að umfjöllun um Panama-skjölin svokölluðu hófst. Í raun þarf Oliver að gera lítið annað að en að sýna áhorfendum sínum viðtalið til þess að uppskera hlátur.

„Holy shit,“ stynur Oliver upp úr sér þegar viðtalið, sem þykir heldur vandræðalegt fyrir Sigmund, hefur verið sýnt. „Þetta var eins og að horfa á bílslys sýnt hægt, eða eins og þeir segja á Íslandi ... bílslys sýnt hægt. En ekki hvað, það eru bílar á Íslandi.“

Oliver sýnir svo frá fjölmennum mótmælum á Austurvelli í vikunni, þar sem matvælum á borð við eggjum og bönunum var grýtt í Alþingishúsið.

„Vá, egg og bananar,“ spaugast Oliver. „Þau eru annað hvort brjáluð út í forsætisráðherrann eða vilja koma honum á Paleo-kúrinn.“

Oliver þykir sömuleiðis ekkert lítið fyndið að sjávarútvegsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafi tekið við af forsætisráðherranum.

„Valdamestir á eftir forsætisráðherranum á Íslandi eru einmitt náunginn sem sér um fiskinn, brennivínsráðherra, álfar og hver sem á lopapeysu og er í stjórnmálastuði.“

Innslag Oliver má sjá hér að neðan en þátturinn í heild sinni verður sýndur á Stöð 2 annað kvöld klukkan 22:40, með íslenskum texta.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×