Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Snæfell 80-74 | Ótrúlegur viðsnúningur Hauka

Stefán Árni Pálsson skrifar
Haukar unnu ótrúlegan sigur, 80-74, í úrslitaeinvígi Dominos-deildar kvenna í kvöld eftir frábæran körfuboltaleik að Ásvöllum en framlengja þurfti leikinn til að skera úr um sigurvegara. Helena Sverrisdóttir fór hreinlega á kostum í kvöld og skoraði 45 stig og að auki var hún meidd á kálfa. Mögnuð frammistaða. Liðin mætast aftur á sunnudagskvöldið í Hólminum.

Helena Sverrisdóttir byrjaði leikinn á því að setja niður tvö skot í röð og stimplaði sig rækilega inn í leikinn. Haiden Denise Palmer var einnig rétt innstillt í liði Snæfells og var nánast jafnt á öllum tölum til að byrja með í leiknum.  Helena og Haiden voru báðar allt í öllu hjá sínum liðum og höfðu Snæfellingar með þriggja stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann, 18-15.

Liðin voru bæði í vandræðum sóknarlega í upphafi annars leikhluta og misstu boltann bæði ítrekað frá sér. Sem fyrr voru það tveir leikmenn sem báru upp sóknarleik liðanna, þær Helena Sverrisdóttir hjá Haukum og Haiden Denise Palmer hjá Snæfellingum. Það var samt sem áður greinilegt að Helena var meidd  og gat ekki beitt sér almennilega sóknarlega. Hún var samt með 17 stig eftir fyrri hálfleikinn og hafði spila mjög vel. Snæfellingar voru frábærir á vítapunktinum og settu niður 11/12 vítaskotum í fyrri hálfleiknum. Slíkt er gríðarlega mikilvægt í svona leikjum. Staðan í hálfleik var 32-26 fyrir Snæfell.

Mikill hraði var í leiknum í upphafi síðari hálfleiks og náðu Snæfellingar að nýta sér það vel. Liðið var fljótlega komið með tólf stiga forystu, 44-32. Þá fóru Haukar í gang og fóru að setja niður skotin. Heimamenn breyttu stöðunni í 46-46 og lítið eftir af þriðja leikhlutanum.  Þegar þriðji leikhlutinn var búinn var staðan 48-46 fyrir Snæfell og gríðarlega spenna á Ásvöllum.

Snæfellingar byrjuðu fjórða leikhlutann frábærlega og komust strax í 54-46 og þá varð Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, að taka leikhlé.  Haukar komu með nokkuð sterkt áhlaup eftir þennan kafla hjá Snæfellingum og minnkuðu fljótlega muninn í fjögur stig.

Spennan var ógnvænleg undir lok leiksins og þegar 10 sekúndur voru eftir af leiknum höfðu Snæfellingar tveggja stig forskot og  Haukar með boltann. Helena Sverrisdóttir fór þá upp völlinn og náði að jafna metin í 69-69. Framlengja þurfti því leikinn. Í framlengingunni voru Haukar mikið mun betri og var bensínið búið hjá Snæfellingum. Haukar unnu að lokum ótrúlegan sigur, 80-74, og geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á sunnudagskvöldið í Hólminum. Liðið leiðir einvígið 2-1.

Haukar-Snæfell 82-74 (15-18, 11-16, 20-14, 23-21, 13-5)

Haukar
: Helena Sverrisdóttir 45/11 fráköst/6 stoðsendingar, Pálína María Gunnlaugsdóttir 10/4 fráköst/7 stoðsendingar, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 7/13 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 5/10 fráköst, Dýrfinna Arnardóttir 4, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 4/4 fráköst, Shanna Dacanay 3, Hanna Þráinsdóttir 2, María Lind Sigurðardóttir 2, Þóra Kristín Jónsdóttir 0, Sólrún Inga Gísladóttir 0, Rósa Björk Pétursdóttir 0.

Snæfell: Haiden Denise Palmer 33/15 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Gunnhildur Gunnarsdóttir 15/7 stoðsendingar, Bryndís Guðmundsdóttir 12/8 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 10/9 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 2/4 fráköst, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 2, Andrea Björt Ólafsdóttir 0, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 0, María Björnsdóttir 0, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Sara Diljá Sigurðardóttir 0/4 fráköst, Erna Hákonardóttir 0.

Ingvar: Helena var eins og hún væri andsetin
Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka.Vísir/Ernir
„Við vörðum heimavöllinn sem við börðust fyrir í allan vetur fyrir og það er frábært,“ segir Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, eftir sigurinn.

„Helena steig upp í kvöld og svo í vitni í Ívar Ásgrímsson, landsliðsþjálfa, hún var algjörlega andsetin inni á vellinum.“

Ingvar segir að frammistaða Helenu hafi verið ótrúleg í kvöld.

„Við ætluðum okkur að komast í bílstjórasætið í kvöld og það gekk. Núna er það bara næsti leikur og við mætum klárar.“

Ingi: Ég tek þetta á mig, þetta var mér að kenna
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells.vísir/anton
„Við framkvæmum innkastkerfi illa undir lokin og ég tek þetta bara á mig, þetta er mér að kenna,“ segir Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, eftir tapið.

„Ég setti bara upp rangt kerfi undir lok venjulegs leiktíma. Þetta var sennilega frábær leikur fyrir áhorfendur en það er bara svo stutt á milli í þessu og það munaði engu fyrir okkur.“

Hann segir að liðið sé í raun bara enn á áætlun og það þurfi alltaf að vinna einn leik í Hafnafirði.

„Haukarnir spiluðu frábærlega í kvöld og Helena var ótrúleg. Skotin duttu bara fyrir þær í framlengingunni. Við mætum bara brjálaðar í leikinn á sunnudagskvöldið og jöfnum þetta einvígi.“

Helena: Prófaði fyrst að hoppa í upphitun
Helena Sverrisdóttir.Vísir/Vilhelm
„Ég er svo ánægð að við náðum að klára þennan leik ,“ segir Helena Sverrisdóttir, eftir ótrúlegan leik í kvöld.

„Maður er bara í skýjunum núna. Ég prófaði fyrst að hoppa á kálfanum í upphitun og ég er bara með frábæra sjúkraþjálfara og lækna í kringum mig.“

Hún segir að liðið hafi sýnt meiri vilja í framlengingunni og það hafi skilað sigrinum.

„Þær eru ekki búnar að tapa þarna í tvö ár og hversu sæt væri að vinna Íslandsmeistaratitilinn á þeirra heimavelli. Núna ætla ég bara að njóta þess að hafa unnið þennan leik í kvöld.  Mig langar bara að spila aftur núna, þetta er svo skemmtilegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×