Íslenska liðið mun dveljast í Annecy á meðan riðlakeppni Evrópumótsins stendur yfir. Ferðin gekk mjög vel í alla staði samkvæmt frétt á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands og þegar lent var í Frakklandi tók var móttökuathöfn áður en var keyrt áleiðis á hótelið í Annecy.
Í gær birtust myndir af strákunum koma út úr flugvélinni jakkaklæddir og flottir og sumir svo svalir að margir misstu sig á Twitter. Það er allvega ljóst að út úr vélinni komu menn svo klæddir og tilbúnir fyrir stóra sviðið á EM í Frakklandi.
Á næstu dögum taka við æfingar við prýðilegar aðstæður í Frakklandi en veðurspáin er á þá leið að eitthvað mun rigna en hlýtt verður í veðri.
Fyrsti leikur íslenska liðsins er á þriðjudaginn, 14. júní, en þá mætir Ísland sterku liði Portúgals.
Síminn hefur birt myndband af strákunum koma út úr flugvélinni í Annecy. Við höfum séð myndirnar af svölu strákunum okkar en hér fyrir neðan er myndbandið. „Best klædda karlalandslið Evrópu er lent í Frakklandi,“ segir í umfjöllun Símans um myndbandið og það er vel hægt að taka undir það.