Íslenska liðið hefur verið í basli í vináttulandsleikjum sínum fyrir Evrópukeppnina en bæði þjálfarar og leikmenn hafa fullvissað íslensku þjóðina um að þeir verði kominn í rétta gírinn í fyrsta leik.
Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik eftir átta daga og spennan magnast því með hverjum deginum sem líður.
Íslenska liðið vann 6 af 10 leikjum sínum í riðlakeppninni og var búið að tryggja sér farseðilinn til Frakklands þegar enn voru tvær umferðir eftir af riðlakeppninni. Tveir sigrar á bronsliði Hollands frá HM í Brasilíu 2014 voru vissulega hápunkturinn á magnaðri frammistöðu íslenska liðsins í undankeppninni.
Sumarmessan á Stöð 2 Sport mun fjalla vel um Evrópumótið og gengi íslensku strákanna á stóra sviðinu og þar var hitað upp með því að skoða það hvernig Íslands tryggði sér sæti á EM.
Nú er bara að treysta orðum strákanna okkar, gleyma þessum vináttuleikjum og rifja það upp hvernig strákarnir okkar fóru að þessu í undankeppninni. Það er liðið sem við viljum sjá glíma við Portúgal, Ungverjaland og Austurríki á EM í Frakklandi.
Það er hægt að sjá þetta skemmtilega og upplífgandi myndband í spilaranum hér fyrir ofan. Það var Stefán Snær Geirmundsson sem setti saman þetta frábæra myndband.