Sport

Dana White styður Donald Trump: Hann mun berjast fyrir Bandaríkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dana White vill sjá Donald Trump í Hvíta húsinu.
Dana White vill sjá Donald Trump í Hvíta húsinu. vísir/getty
Dana White, forseti UFC, hélt innblásna ræðu til stuðnings Donalds Trump á flokksþingi Repúblikanaflokksins í Cleveland í gær.

Trump var formlega gerður að forsetaefni Repúblikana í gær en þessi mjög svo umdeildi maður stefnir að því að komast í Hvíta húsið.

White er mikill stuðningsmaður Trumps og fór fögrum orðum um hann í gær. Hann sagði að Trump væri fær viðskiptamaður, harðduglegur en jafnframt góður og traustur vinur.

„Við þurfum einhvern sem trúir á þessa þjóð og mun berjast fyrir þá,“ sagði, eða öskraði, White.

„Ég hef verið í bardagabransanum allt mitt líf. Ég þekki bardagamenn. Dömur mínar og herrar, Donald Trump er baráttumaður og mun berjast fyrir þessa þjóð.“

Í ræðu Whites kom fram að Trump hafi stutt hann alla tíð og hvatt hann áfram. Þess má geta að fyrstu tvö bardagakvöld UFC eftir að White keypti það 2001 voru haldin í Trump Taj Mahal í Atlantic City í New Jersey.

Fyrr í þessum mánuði var UFC selt fyrir fjóra milljarða dala eða tæplega 500 milljarða íslenskra króna. Samkvæmt heimildum ESPN fær White 360 milljónir dala í sinn hlut eftir söluna en hann verður áfram forseti UFC.

Brot úr ræðu Dana White má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×