Verðtryggingarfrumvarpið miðar að því að banna verðtryggð lán, lengri en 25 ár, nema í undantekningartilfellum. Undanþágur verða veittar ungu fólki, tekjulágum og einstaklingum sem taka lán með lágu veðsetningarhlutfalli.
Í kosningabæklingi Framsóknarflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar segir að Framsóknarflokkurinn vilji „afnema verðtryggingu á neytendalánum.“ Ljóst er að frumvarpið sem kynnt var í gær nær ekki því markmiði.
„Ég hef skrifað um kosti þess og galla að banna verðtryggingu á nýjum lánum. Það hefði verið það sem ég hefði kosið. En þetta er málamiðlun tveggja flokka þar sem annar flokkurinn er ekki sammála mér,“ segir Frosti.
Þingið mun taka við málinu og Frosti væntir þess að fá frumvarpið inn í sína nefnd. Þar verði kallað eftir umsögnum um það og nefndin taki sér góðan tíma til að fara yfir málið.



„En auðvitað er grunnvandinn alltaf hátt vaxtastig okkar en ekki verðtryggingin sem slík,“ segir Þorsteinn.
Hann leggur áherslu á að nægur tími verði tekinn til að ráðast í það sem hann kallar umfangsmiklar kerfisbreytingar. Mat verði lagt á áhrif frumvarpanna og ekki verði of mikill flýtir hafður á afgreiðslu þeirra.
Hvaða þýðingu hafa frumvörpin?
Húsnæðisfrumvarpið framlengir rétt fólks til að nýta séreignarlífeyrissparnaðinn til fyrstu húsnæðiskaupa um tíu ár. Að hámarki má nýta 500 þúsund krónur á ári í úrræðið svo í besta falli getur einstaklingur safnað fimm milljón krónum á tímabilinu.
Frumvarpið gerir ráð fyrir að þrjár leiðir standi fólki til boða.
1) Skattfrjáls séreignarsparnaður safnist upp á tíu árum sem hluti í útborgun
2) Skattfrjáls séreignarsparnaður greiðist inn á höfuðstól um hver mánaðamót í tíu ár.
3) Blönduð leið þar sem skattfrjáls séreignarsparnaður greiðir niður höfuðstól óverðtryggðs láns og lækkar greiðslubyrði.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segist ekki hafa áhyggjur af því að fullnýting úrræðisins muni hafa áhrif á fjárhagslega stöðu þegar á lífeyrisaldur er komið. „Í eðli sínu ættir þú að vera betur settur og færð verulegt skattahagræði. Þú ert með minni séreign en væntanlega með meiri eign í fasteign. Það má ekki gleyma því að húsnæðiseign landsmanna hefur ekki síður verið uppspretta lífeyris á efri árum.“
Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.