Innlent

Mikill ferðamannastraumur við Geysi í Haukadal

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Vísi barst þessi mynd sem tekin var við Geysi í Haukadal í dag.
Vísi barst þessi mynd sem tekin var við Geysi í Haukadal í dag. mynd/Kári jónasson
„Það er búið að vera gríðarlegur munur á milli ára,“ segir Jón Örvar Baldvinsson, umsjónarmaður tjaldstæðisins Skjóls við Geysi í Haukadal um ferðamannastrauminn á svæðinu.

Svæðið í kringum Geysi er með vinsælustu áfangastöðum ferðamanna sem heimsækja Ísland enda hluti af gullna hringnum, ásamt Gullfossi og Þingvöllum. Helstu ferðaþjónustufyrirtæki landsins bjóða upp á rútuferðir að Geysi nokkrum sinnum á dag, allan ársins hring. Fjölmargir ferðamenn leggja jafnframt leið sína á svæðið á bílaleigubílum.

Að sögn Jóns Örvars hefur dagsferðum ekki einungis fjölgað heldur ber einnig mikið á ferðalöngum sem tjalda í eina eða fleiri nætur á tjaldstæðinu. Tíðarfar hefur verið gott í haust og svokallaðir „camperar“ hafa aukist mikið í vinsældum upp á síðkastið

„Á hverju einasta kvöldi eru hér „camperar“. Þannig var þetta ekki í fyrra,“ segir Jón Örvar og bætir við að húsbílar séu einnig algengari sjón en á síðustu árum. „Svo er alltaf einn og einn í tjaldi,“ segir hann.

„Camperar“ hættir að leggja utan tjaldstæða

Jón Örvar segir að ferðamannastraumurinn í haust hafi verið óvenjumikill. „Þetta var ekki svona í fyrra. Þá var einn og einn á ferðinni [á tjaldstæðinu] en núna fáum við fólk á hverjum degi,“ bætir hann við.

Að mati Jóns standa innviðir Geysis í Haukadal nógu sterkum fótum til þess að taka á móti svo miklum fjölda ferðamanna enda staldra flestir gestir stutt við. Að hans mati er umgengni ferðafólksins til fyrirmyndar. „Hún er mjög fín. Ég verð ekki var við neitt annað.“

Jón nefnir einnig að ferðafólk sem ferðast um á „camperum“ hafi að mestu leyti látið af því að leggja bifreiðum sínum utan tjaldstæða og telur hann líklegt að upplýsingaflæði af hálfu bílaleiganna sé orðið betra. „Það er meira um það núna að fólk sé að leggja hérna hjá mér og borga fyrir heldur en að fólk sé að leggja úti um allt,“ segir Jón.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×