Körfubolti

Gunnhildur fer með til Slóvakíu | Ívar valdi bæði Emelíu Ósk og Thelmu Dís

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnhildur Gunnarsdóttir.
Gunnhildur Gunnarsdóttir. Vísir/Ernir
Ívar Ásgrímsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfubolta, hefur valið þá tólf leikmenn sem fara til Slóvakíu í fyrramálið og mæta heimastúlkum í undankeppni EM á laugardaginn.

Tveir nýliðar eru í hópnum en Keflvíkingarnir Emelía Ósk Gunnarsdóttir og Thelma Dís Ágústsdóttir munu þar með spila sinn fyrsta A-landsleik út í Slóvakíu.

Gunnhildur Gunnarsdóttir, sem missti af síðasta leik Snæfells vegna höfuðmeiðsla, fer út með íslenska liðinu en hún og systir hennar Berglind Gunnarsdóttir eru báðar í hópnum. Gunnhildur tók við fyrirliðabandinu af Helenu Sverrisdóttir í síðasta verkefni liðsins og er gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir íslenska landsliðið.

Emelía Ósk og Thelma Dís, sem eru báðar átján ára gamlar, hafa staðið sig frábærlega með spútnikliði Keflavíkur í vetur en Keflavíkurliðið situr nú við hlið Íslandsmeistara Snæfells á toppi Domino´s deildar kvenna.

Hallveig Jónsdóttir er í hópnum og mun þannig spila sinn fyrsta landsleik í þrjú og hálft ár eða síðan á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg árið 2013.

Sandra Lind Þrastardóttir er eini leikmaður íslenska liðsins sem spilar ekki í Domino´s deildinni en hún spilar í vetur með danska félaginu Horsholms 79’ers.

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir er leikreyndasti leikmaður liðsins en hún á að baki 43 landsleiki. Pálína María Gunnlaugsdóttir og Ragna Margrét Brynjarsdóttir hafa báðar spilað 35 landsleiki.

Átta af tólf leikmönnum íslenska liðsins eru annaðhvort uppaldar í Keflavík, leikmenn Keflavíkur í dag eða hafa spilað með Keflavíkurliðinu einhvern tímann á ferlinum.

Ívar valdi fimmtán manna æfingahóp en þær Birna Valgerður Benónýsdóttir, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir og Ragnheiður Benónísdóttir verða eftir heima en koma mögulega inn í hópinn í leiknum á móti Portúgal í næstu viku.

Hópurinn í leiknum á móti Slóvakíu á laugardaginn:

Berglind Gunnarsdóttir - Snæfell · 6 landsleikir

Emelía Ósk Gunnarsdóttir - Keflavík · Nýliði

Gunnhildur Gunnarsdóttir - Snæfell · 25 landsleikir

Hallveig Jónsdóttir - Valur · 3 landsleikir

Ingibjörg Jakobsdóttir - Grindavík · 14 landsleikir

Ingunn Embla Kristínardóttir - Grindavík · 7 landsleikir

Pálína María Gunnlaugsdóttir - Snæfell · 35 landsleikir

Ragna Margrét Brynjarsdóttir - Stjarnan · 35 landsleikir

Salbjörg Ragna Sævarsdóttir - Keflavík · 1 landsleikur

Sandra Lind Þrastardóttir - Horsholms 79’ers, Danmörku · 9 landsleikir

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir - Skallagrímur · 42 landsleikir

Thelma Dís Ágústsdóttir - Keflavík · Nýliði

Aðrir leikmenn í æfingahóp sem mögulega koma inn fyrir Portúgalsleikinn hér heima:

Birna Valgerður Benónýsdóttir - Keflavík · Nýliði

Elín Sóley Hrafnkelsdóttir - Valur · 2 landsleikir

Ragnheiður Benónísdóttir - Skallagrímur · Nýliði




Fleiri fréttir

Sjá meira


×