Körfubolti

Sú stigahæsta í deildinni spilar í kvöld sinn fyrsta leik í 24 daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carmen Tyson-Thomas hefur verið á bekknum í síðustu leikjum.
Carmen Tyson-Thomas hefur verið á bekknum í síðustu leikjum. Vísir/Eyþór
Kvennalið Njarðvíkur hefur þurft að spila án síns besta leikmanns í síðustu tveimur leikjum hafa nú endurheimt Carmen Tyson-Thomas sem er stigahæsti leikmaður Domino´s deildar kvenna.

Carmen Tyson-Thomas er orðinn leikfær á ný eftir hnémeiðslin sem hún varð fyrir í upphafi mánaðarins. Hún mun spila sinn fyrsta leik í 24 daga en Domino´s deildin fer nú af stað á ný eftir landsleikjahlé.

Carmen Tyson-Thomas verður nefnilega með Njarðvíkurliðinu í kvöld þegar Njarðvík heimsækir Stjörnuna í Ásgarð. Þetta kemur fram á fésbókarsíðu Njarðvíkinga.



Carmen Tyson-Thomas meiddist í fyrri hálfleik í bikartapi í Grindavík 6. nóvember síðastliðinn.

Hún er langstigahæsti leikmaður Domino´s deildar kvenna með 38,9 stig að meðaltali auk þess að vera frákastahæst með 16,3 fráköst í leik. Tyson-Thomas hefur hæsta framlagið í deildinni, 42,9 í leik, og þá er hún í þriðja sæti í bæði stoðsendingum (4,6 í leik) og í stolnum boltum (2,86 í leik).

Njarðvíkur tapaði bikarleiknum í Grindavík með 15 stigum og þá hefur liðið tapað tveimur deildarleikjum sínum án Carmen Tyson-Thomas með samtals 50 stigum.

Undanfarin tvö tímabil hefur Njarðvíkurliðið unnið 12 af 16 leikjum sínum með Tyson-Thomas innanborðs (75 prósent) en aðeins 4 af 9 leikjum án hennar (44 prósent). Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi hennar eftir upptalningu á allri þessari mögnuðu tölfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×