Innlent

Segja Alþingi hafa brugðist trausti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, Árni Stefán Jónsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, og Elín Björg Jónasdóttir, formaður BSRB, mættu á þingpalla til að fylgja gagnrýni sinni eftir þegar frumvarpið var til umræðu í þinginu.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, Árni Stefán Jónsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, og Elín Björg Jónasdóttir, formaður BSRB, mættu á þingpalla til að fylgja gagnrýni sinni eftir þegar frumvarpið var til umræðu í þinginu. vísir/Anton Brink
Alþingi var enn að ræða umdeilt frumvarp um jöfnun lífeyrisréttinda með atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, þegar Fréttablaðið fór í prentun í gærkvöldi.

Frumvarpið var lagt fram eftir að samkomulag náðist milli ríkis og sveitarfélaga annars vegar og heildar­samtaka launþega (BHM, BSRB og Kennarasambands Íslands) hins vegar hinn 19. september. Markmið samkomulagsins var að koma á samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn, hvort sem þeir starfa á almennum markaði eða hjá hinu opinbera.

Fyrrgreint samkomulag var kynnt með viðhöfn í Hannesarholti. Þar kom fram að markmið með breytingunum væri meðal annars að gera launafólki betur kleift að færa sig milli almenns og opinbers vinnumarkaðar hvenær sem er starfsævinnar án þess að það hafi áhrif á ávinnslu lífeyrisréttinda. Tekið var fram að með breytingunni ættu réttindi sjóðsfélaga ekki að skerðast.

Eftir að samkomulagið var undirritað gagnrýndi Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga harðlega samráðsleysið enda standa þeir utan BHM og BSRB. Einstök félög innan BSRB, svo sem sjúkraliðar, lögreglumenn, slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn og tollverðir gagnrýndu líka aðild BSRB að samkomulaginu. Þegar frumvarpi um málið var svo dreift á Alþingi gagnrýndu launþegasamtökin það harðlega og sögðu það ekki í samræmi við fyrrgreint samkomulag.

Frumvarpið var lagt fram aftur þegar þing kom saman í desember. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur lagt ríka áherslu á að málið verði samþykkt fyrir áramót. Ástæðan er sú að til þess að tryggja óbreytt réttindi sjóðsfélaga er ráðgert að ríkið leggi til 106,8 milljarða króna í lífeyrisaukasjóð og 8,4 milljarða í varúðarsjóð sem verður dregið á ef lífeyrisaukasjóðurinn dugar ekki til. Að auki er gert ráð fyrir 10,4 milljarða framlagi frá ríkissjóði til að rétta af núverandi halla á A-deild lífeyrissjóðsins. Þessi útgjöld er hægt að fjármagna í ár, án þess að til komi halli á ríkissjóði, vegna stöðugleikaframlaga slitabúa föllnu bankanna. Það er mat fjármálaráðherra að ef málið myndi bíða væri ekki hægt að fjármagna kostnaðinn við það nema með halla á fjárlögum.

Gagnrýni BHM á frumvarpið snýst einkum um að í samkomulaginu frá 19. september sé talað um að tryggja þegar áunnin réttindi allra sjóðsfélaga. Í frumvarpinu sé talað um virka greiðendur, sem þýðir að þeir sem hafa greitt í lífeyrissjóð síðustu 12 mánuði fá lífeyrisaukann.

Það þýðir að þeir ávinna sér réttindi eins og í gamla kerfinu og geta farið á eftirlaun 65 ára eins og í gamla kerfinu. Öðru máli gegnir um þá sem eiga geymd réttindi, það er hafa ekki greitt síðustu tólf mánuði en hafa greitt einhvern tíma áður. „Samkomulagið er alveg skýrt um að það talar um alla og við höfum ekki verið í neinum vafa um skilning okkar á því, ekki frekar en BSRB eða KÍ,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, máli sínu til stuðnings. Í öðru lagi segir Þórunn að tryggingafræðilegt mat á lífeyrisaukasjóðnum hafi breyst til hins verra frá því sem var þegar frumvarpið var lagt fram fyrir kosningar.

Í umsögn BSRB er gerð athugasemd við að afnema skuli ríkis­ábyrgð á greiðslum launagreiðanda, það er ríkissjóðs, fyrir þá launþega sem ekki eru orðnir 60 ára. Þar með eru réttindi annarra sjóðsfélaga skert án þess að nokkuð komi í staðinn.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×