Innlent

Hagkerfinu verður ekki handstýrt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Halldór Benjamín segir mikilvæg tækifæri felast í tengiflugi milli vesturs og austurs. Lega Íslands skipti miklu máli fyrir framtíðina.
Halldór Benjamín segir mikilvæg tækifæri felast í tengiflugi milli vesturs og austurs. Lega Íslands skipti miklu máli fyrir framtíðina. vísir/gva
Hagfræðingurinn Halldór Benjamín Þorbergsson tekur við starfi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins um næstu áramót. Hann er framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Icelandair Group og er búinn að starfa í sjö ár hjá fyrirtækinu. Hann ræðir við Fréttablaðið um starfið hjá Icelandair Group, áhugann á opinberri stefnumótun, verkefnin fram undan hjá Samtökum atvinnulífsins og margt fleira.

Var ekki að leita að vinnu

„Ef þú hefðir spurt mig fyrir nokkrum mánuðum hvort ég væri að leita að nýju starfi þá væri svarið nei. Og ég hef ekkert verið að leita að nýju starfi. Hins vegar þegar ég sá þetta auglýst þá kviknaði einhver neisti og ég ákvað með mjög skömmum fyrirvara að stökkva á þetta,“ segir hann og tekur fram að hann hafi fylgst lengi með þjóðmálum og fylgst vel með starfi Samtaka atvinnulífsins og einnig Viðskiptaráðs. Hann var raunar framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs til skamms tíma. Að auki hefur Halldór Benjamín starfað sem ráðgjafi fyrir stjórnvöld við ýmis verkefni, meðal annars við framkvæmd skuldaleiðréttingar heimilanna.

Halldór Benjamín segist því hafa innsýn í opinbera stefnumótun og reynslu af því að hrinda stefnumálum í framkvæmd. „Ég hef verið svo heppinn að koma að nokkrum málum og ég finn að þetta kallar sterkt á mig. Mér finnst þetta skemmtilegt og áhugavert og mig langar til að gera meira af þessu,“ segir hann og bendir á að störf á vettvangi Samtaka atvinnulífsins snúist meðal annars um opinbera stefnumótun. Það að geta haft skoðun, hrint málum í framkvæmd og sett þau á dagskrá höfði vel til hans. Hann minnist tímans hjá Viðskiptaráði með hlýju. „Það var frábært starf og hollt fyrir þá sem hafa áhuga á þessum vettvangi að byrja snemma hjá Viðskiptaráði. Ég hins vegar fann að ég vildi ekki vera þar alla ævi. Ég vildi fara út í atvinnulífið og gerði það. Ég held að það sé hollt að þekkja báða heima,“ segir Halldór. Hann bendir á að félagsmenn Samtaka atvinnulífsins séu fyrirtækin í landinu. Því sé mikilvægt fyrir þá sem þar starfa að hafa skilning á viðskiptalífinu.

Halldór Benjamín segir Björgólf Jóhannsson, formann SA og forstjóra Icelandair Group, ekki hafa hvatt hann til að sækja um starfið hjá SA. „Þetta er bara sjálfsprottin ákvörðun mín og ég held mínu fyrir mig. Þetta kom held ég flestum hér í opna skjöldu,“ segir Halldór um viðbrögð samstarfsmanna sinna hjá Icelandair Group. Hann muni hins vegar sakna samstarfsmannanna enda sé þetta frábær vinnustaður.

Halldór Benjamín Þorbergsson hefur unnið hjá Icelandair Group í sjö ár. Samhliða því hefur hann unnið ýmis störf fyrir hið opinbera. vísir/GVA
Vantaði afþreyingu

Halldór situr í stjórn Iceland Tourism Fund, um fjögurra milljarða sjóðs Landsbréfa sem fjárfestir í ferðaþjónustutengdri afþreyingu. „Við sáum hér ásamt fleiri aðilum upp úr árunum 2010 og 2011 að ferðaþjónustunni var farinn að vaxa fiskur um hrygg. Það vantaði hins vega einn angann. Það var fullt af fólki að fjárfesta í hótelum, bílaleigubílum og fleiru en það vantaði hins vegar afþreyingu,“ segir Halldór. Vandinn hafi hins vegar verið sá að það hafi verið erfitt að fjármagna uppbyggingu í afþreyingu. „Það var því markaðsbrestur í eðli sínu. Við ákváðum að stíga inn í þetta með fjárframlögum, vera stofnaðilar sjóðs með Landsbréfum, fá aðra fagfjárfesta að sjóðnum, selja hugmyndina og hrinda þessu í framkvæmd. Núna, þremur árum síðar, erum við með um tug verkefna víðsvegar um land sem hefðu aldrei orðið að veruleika nema fyrir tilstilli sjóðs eins og þessa,“ segir Halldór Benjamín og nefnir ísgöngin í Langjökli sem eitt þeirra verkefna sem fjármögnuð hafa verið. „Það er frábært verkefni sem verður til úr engu og gengur glimrandi vel,“ segir hann. Á meðal annarra verkefna eru Fákasel, Hvalasafnið á Granda, Eldfjallasetrið á Hvolsvelli og uppbygging Perlunnar. „Hugsunin var sú að vera með landfræðilega dreifingu. Það er rosalega auðvelt að fjárfesta bara í 20 mínútna fjarlægð frá Reykjavík en það er kannski minnst vöntunin þar.“

Frábært kreppumeðal 

Halldór Benjamín segist ekki hafa áhyggjur af því að uppgangurinn í ferða- og flugþjónustunni sé of hraður. „Ferðaþjónustan og flugið hefur verið frábært kreppumeðal hér á Íslandi,“ segir Halldór Benjamín. Hann hafi reiknað út fyrir tveimur árum eða svo hver áhrif flug- og ferðaþjónustu hafi haft á hagvöxt á Íslandi frá árinu 2011. Niðurstaðan sé mjög áþekk þeirri niðurstöðu sem Hagfræðideild Landsbankans birti á dögunum. „Ef þú tekur þessa liði út, þá hefur hagvöxtur verið lítill á þessu tímabili á Íslandi.“

Halldór Benjamín segir að Ísland eigi hins vegar ekki að stefna að því að fjölga ferðamönnum sem mest heldur verðleggja sig rétt og ná til betur borgandi ferðamanna. „Kjarninn í þessu öllu er hins vegar Ísland sem tengistöð milli austurs og vesturs,“ segir hann og bætir við að þetta tengiflug milli Ameríku og Evrópu sé spennandi viðskiptatækifæri fyrir Ísland í heild sinni sem þyrfti að hlúa að, m.a. með aukinni innviðauppbyggingu í flugvöllum.

Mikilvægt að byggja upp innviði

Halldór segir stóru áskorunina í ferðaþjónustu vera þá að byggja upp innviði um allt landið. „Ísland er uppselt hluta ársins sums staðar. Það er nú allur vandinn,“ segir hann og bætir við að áskoranirnar felist þá í því að dreifa ferðamönnum um landið. Þar skipti fyrrnefndur fjárfestingarsjóður máli. „Við gerum það með því að byggja upp áhugaverða segla alls staðar um landið.“ Halldór segir innviðauppbygginguna vera aðalatriðið. „Þegar þú ert kominn með innviði geturðu farið að stýra verðinu betur. Á meðan þú ert að elta skottið á sjálfum þér til að ná betur utan um þessa grunninnviði þá er vöxturinn sem þú getur tekið við takmarkaður,“ segir hann.

Halldór segir líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvernig eigi að greiða fyrir innviðauppbygginguna. „Ég hef verið talsmaður þess að við tökum upp bílastæðagjöld á fjölförnum stöðum,“ segir hann. Það sé mun eðlilegra að tekjur verði til á þeim stað þar sem eftirspurnin er í stað þess að safna í sameiginlega sjóði og endurdreifa svo fjármagninu. „Þetta mun ekki þykja fréttnæmt eða vekja eftirtekt úti í heimi. Vegna þess að þetta er bara það sem gerist og gengur annars staðar. Verð hefur áhrif á eftirspurn.“

Halldór segir sterka krónu vissulega vera áskorun fyrir ferðaþjónustu eins og aðrar útflutningsgreinar og geta haft áhrif á vöxt hennar. „En ég er ekki talsmaður þess að við förum að handstýra gengi krónunnar. Það er ekki hægt að handstýra hagkerfinu en það er hægt að hafa áhrif til þess að það séu ekki endalausar sveiflur fram og til baka. Til dæmis er hægt að stuðla að aukinni fjárfestingu innlendra aðila erlendis, sér í lagi lífeyrissjóðanna,“ segir Halldór. Vaxtastefnan skipti líka máli, lækka þurfi vexti.

Breytingar á skattkerfinu

Halldór sat í verkefnastjórn Samráðsvettvangs um aukna hagsæld sem hafði það hlutverk að móta tillögur um endurbætur á skattkerfinu. „Hugsunin var að skoða skattkerfið út frá hagkvæmni og skilvirkni,“ segir hann. Verkefnið hafi verið að finna út hvernig sníða megi helstu vankantana af skattkerfinu. 

„Þetta snerist ekki um það að auka eða minnka tekjurnar. Við hugsuðum okkur bara að þær væru fasti. Það væri síðan stjórnmálanna að ákveða hvort tekjurnar ættu að vera hærri eða lægri,“ segir hann. Sumar tillögurnar séu algjörlega borðleggjandi, til dæmis þær sem snúa að skattaeftirliti og úrvinnslu innan kerfisins. „Síðan eru tillögur um breytingar á tekjuskattskerfinu og virðisaukaskattskerfinu þar sem mælt er með einni virðisaukaskatts­prósentu með fáum undanþágum,“ segir hann. Þá séu einnig tillögur að einföldun á barnabóta- og vaxtabótakerfinu.

Halldór segir þetta hafa verið góðan vettvang til að varpa fram, ekki endilega byltingarkenndum hugmyndum, en vel unnum og ígrunduðum hugmyndum sem eigi að vera raunhæfar í þeim skilningi að það eigi að vera hægt að nota þær við opinbera stefnumótun.

Halldór segir flækjustigið á skattkerfinu vera of hátt. „Ef ég spyr þig hvaða skattprósentu þú ert að borga þá þarftu að vera með Excel-skjal til að útskýra það. Ég velti fyrir mér hvort það sé æskilegt. Er ekki fínt að fólk skilji þetta betur? Erum við búin að flækja kerfið um of? Ég er allavega þeirrar skoðunar að einfaldir skattar séu plús.“ Hann bendir á að skattkerfið geti haft vinnuhvetjandi og vinnuletjandi áhrif.

Horft verði til langs tíma

Halldór segir mikilvægt að við opinbera stefnumótun, eins og í skattamálum, breyti menn ekki um kúrs í einu vetfangi heldur verði það að liggja fyrir hvert langtímamarkmiðið sé. Menn verði að hafa sameiginlegt langtímamarkmið, sameiginlegan skilning á því hvert eigi að stefna.

„Þetta yrði stórkostleg breyting frá því sem nú er, menn eru ekki að vinna á þennan hátt núna,“ bætir hann við og tekur jafnframt fram að Salek-samkomulagið byggi á þessari hugsun. Með því samkomulagi er með nokkurri einföldun verið að leggja áherslu á að laun verði ekki hækkuð umfram framleiðniaukningu í samfélaginu. Halldór segir að það muni taka tíma að róa í þessa átt en við verðum öll betur sett ef það tekst.

Hann segir að það þurfi að vinna að því að fræða fólk um það hvað breytt samningalíkan á vinnumarkaði hefur í för með sér. „Ekki að ræða meðaltölin heldur ræða hvaða áhrif þetta hefur á mig og þig,“ segir hann. 

Ný vinnubrögð í kjarasamningum séu eitt stærsta hagsmunamál almennings. „Vegna þess að ef okkur tekst það ekki tekst ekki að lækka vexti. Það liggur bara fyrir. Ég geri ráð fyrir að þitt heimilisbókhald sé bara eins og mitt og 99,9 prósenta Íslendinga. Við skuldum í húsnæði. Það að ná niður greiðslubyrðinni á húsnæðisláninu er besta kjarabót sem við getum náð fram,“ segir Halldór og bætir því við að forsendan fyrir því að ná niður greiðslubyrði lána sé að ná stöðugu verðlagi. Og til þess að ná stöðugu verðlagi þurfi að vera stöðugleiki á vinnumarkaði. 

„Þetta helst allt í hendur, fjármál hins opinbera, vinnumarkaður og peningastefnan. Það verða allir að standa sína plikt,“ segir Halldór. Hann fagnar um leið ráðstöfun á 27 milljarða arðgreiðslu Íslandsbanka til ríkissjóðs. „Hún fer beint í að borga niður skuldir. Mjög skynsamleg ráðstöfun að mínu mati. Það er frábært að taka þetta bara til hliðar. En auðvitað er freistnivandinn gríðarlegur. Það vilja auðvitað allir allt fyrir alla gera,“ segir Halldór.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×