Óskarsverðlaunahafinn Tom Hanks hefur sent blaðamönnum sem starfa í Hvíta húsinu og fjalla um Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, espresso-vél. Þetta er þriðja espressó-vélin sem Hanks gefur blaðamönnum sem hafa það að starfi að fjalla um forseta Bandaríkjanna. Guardian greinir frá.
„Til blaðamanna í Hvíta húsinu. Haldið áfram að berjast fyrir sannleikanum, réttlæti og bandarísku leiðinni, sérstaklega fyrir sannleikanum,“ stóð í bréfi frá Hanks sem fylgdi gjöfinni.
Espresso-vélin nýja kemur í stað þeirrar sem Hanks gaf blaðamönnum árið 2010 þegar hann tók eftir að espressó-vélin sem hann gaf árið 2004 var í slæmu ástandi vegna ofnotkunar.
Samband blaðamanna við ríkisstjórn Trump hefur verið stormasamt en stutt er síðan blaðamönnum New York Times, CNN og fleiri fjölmiðla var meinaður aðgangur að blaðamannafundi í Hvíta húsinu. Þá hefur Trump tilkynnt að hann muni ekki mæta á árlegan kvöldverð blaðamanna innan Hvíta hússins. Verður það í fyrsta sinn í 36 ár sem að forseti lætur ekki sjá sig á þessum viðburði.
Hanks, sem studdi Hillary Clinton í forsetakosningum í Bandaríkjunum á síðasta ári, vonast væntanlega til þess að gjöf sín auðveldi blaðamönnum að vinna starf sitt.
