Körfubolti

Blikastúlkur unnu tvisvar á Akureyri og eru komnar upp í Dominos

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Isabella Ósk Sigurðardóttir átti mjög flottan leik með Breiðabliki.
Isabella Ósk Sigurðardóttir átti mjög flottan leik með Breiðabliki. Vísir/Ernir
Breiðablik tryggðu sér sæti í Domino´s deild kvenna í körfubolta í kvöld eftir fjórtán stiga sigur á deildarmeisturum Þórs á Akureyri, 56-42, en oddaleikur liðanna var spilaður í Síðuskóla á Akureyri.

Isabella Ósk Sigurðardóttir átti mjög flottan leik með Breiðabliki í kvöld en hún skoraði 21 stig, tók 18 fráköst og varði fjögur skot.

Sóllilja Bjarnadóttir, sem kom aftur heim í Breiðablik í haust, skoraði 13 stig og Telma Lind Ásgeirsdóttir var með 10 stig eins og Auður Ólafsdóttir sem kom frá Skallagrími á miðju tímabili.

Helga Rut Hallgrímsdóttir var með 12 stig og 12 fráköst hjá Þór og Rut Herner Konráðsdóttir skoraði 11 stig.

Hildur Sigurðardóttir er á sínu fyrsta ári sem þjálfari í meistaraflokki og hún skilaði Blikaliðinu upp í Domino´s deildina strax á fyrsta ári. Blikar eiga því aftur lið í efstu deild kvenna en Blikar féllu úr deildinni vorið 2015 eða sama ár og Hildur lagði skóna á hilluna.

Þórsliðið vann deildina og var með heimavallarrétt í lokaúrslitunum en það dugði skammt þar sem Breiðablik vann báða leiki liðanna á Akureyri.

Þór náði að sækja sigur í Smárann í Kópavogi í síðasta leik og tryggja sér oddaleik en norðanstúlkur náðu ekki að fylgja því eftir í kvöld.

Þórsliðið var reyndar fimm stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 18-13, en Blikar unnu annan leikhlutann 16-8 og voru því komnar þremur stigum yfir í hálfleik, 29-26.

Blikar héldu forystunni og voru síðan sex stigum yfir, 42-36, fyrir lokaleikhlutann. Í fjórða og síðasta leikhlutanum var sigur Blika aldrei í mikilli hættu.



Þór Ak.-Breiðablik 42-56 (18-13, 8-16, 10-13, 6-14)

Þór Ak.: Helga Rut Hallgrímsdóttir 12/12 fráköst, Rut Herner Konráðsdóttir 11/4 fráköst, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 9/7 fráköst, Thelma Hrund Tryggvadóttir 6, Erna Rún Magnúsdóttir 4/6 fráköst.

Breiðablik: Isabella Ósk Sigurðardóttir 21/18 fráköst/4 varin skot, Sóllilja Bjarnadóttir 13, Telma Lind Ásgeirsdóttir 10, Auður Íris Ólafsdóttir 10/8 fráköst, Eyrún Ósk Alfreðsdóttir 2/5 fráköst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×