Körfubolti

Sú besta líklega á leið í skóla í Bandaríkjunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thelma Dís Ágústsdóttir, leikmaður Keflavíkur í Domino´s-deild kvenna í körfubolta, var kjörin besti leikmaður tímabilsins á uppgjöri vetrarins hjá KKÍ í Ægisgarði úti á Granda í dag.

Thelma var besti ungi leikmaðurinn á síðustu leiktíð en bætti um betur og stóð upp úr í meistaraliði Keflavíkur þennan veturinn. Hún var eðlilega meira en kát með verðlaunin.

„Algjörlega. Við stóðum okkur ótrúlega vel í vetur, allar sem lið og þetta er það sem við erum að uppskera,“ sagði Thelma en Keflavíkurliðið sópaði að sér verðlaunum í dag.

„Árangurinn sem við höfum náð er vonum framar. Við vissum alveg hvað við erum góðar en við bjuggumst ekki alveg við þessu í vetur. Allavega ekki ég. Þetta er alveg æðislegt.“

Keflavíkurliðið stefndi á að komast í úrslitakeppnina en hvenær var það í vetur sem Thelma sá að liðið gæti farið alla leið?

„Ég held það hafi verið um jólin, þegar tímabilið var hálfnað. Þá sá ég alveg að við vorum nógu góðar til að vinna þetta.“

Óvíst er hvort Thelma Dís verði áfram hjá Keflavík næsta vetur þar sem hún stefnir til Bandaríkjanna í háskólaboltann þar.

„Ég er að skoða skóla úti núna og það kemur í ljós fljótlega. Mig langar að prófa þetta. Ég er búin að vera í sambandi við nokkra skóla úti. Ég er samt ekki alveg viss sjálf hvernig þetta fer,“ sagði Thelma Dís Ágústsdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×