Innlent

Vinstriblokkin með hæstu flokksgjöldin

Snærós Sindradóttir skrifar
Á stofnfundi Sósíalistaflokks Íslands í gær samþykktu félagsmenn að flokksgjöldin yrðu 4.000 krónur á ári.
Á stofnfundi Sósíalistaflokks Íslands í gær samþykktu félagsmenn að flokksgjöldin yrðu 4.000 krónur á ári.
Á stofnfundi Sósíalistaflokks Íslands í gær samþykktu fundargestir að árgjald meðlima yrði 4.000 krónur. Flokksgjald starfandi stjórnmálaflokka er nokkuð misjafnt en flestir segja flokkarnir að gjöldin séu valkvæð og enginn verði gerður brottrækur úr stjórnmálaflokknum við að hunsa kröfuna þegar hún berst í heimabankann.

Hæstu flokksgjöldin má finna hjá Vinstri grænum í Reykjavík. Svæðisfélög flokkanna leggja misháar fjárhæðir á meðlimi sína en hjá Vinstri grænum í Reykjavík, sem er stærsta aðildarfélag flokksins, er valkvæð greiðsla 5.000 krónur.

Flokksgjald annarra svæðisfélaga VG er allt frá 1.500 krónum á ári en svo tíðkast að kjörnir fulltrúar flokksins, á landsvísu og í sveitarstjórnum, greiði svokallaða tíund eða hlutfall tekna sinna, sem þeir afla vegna pólitískra starfa, til flokksins.

Að hámarki mega einstaklingar styrkja stjórnmálaflokka um 400 þúsund krónur á ári.

Samfylkingin hefur svipað háa greiðslu og hinn nýstofnaði Sósíalistaflokkur Íslands. Meðlimum Samfylkingarinnar í Reykjavík hefur borist krafa í heimabanka upp á 3.990 krónur.

Stuðningur Pírata við flokk sinn er einnig valkvæður en miðast við 3.500 króna árgjald. Eins og í öðrum flokkum tíðkast ekki að ganga hart á eftir þeim sem ekki borga hjá Pírötum. „Fólk getur verið félagsmenn óháð því hvort það greiðir þessa valfrjálsu greiðslu eða ekki. Við viljum ekki hindra aðgang neins að flokknum,“ segir Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata.

Björt framtíð sker sig úr öðrum flokkum en þar er valkvæð greiðsla flokksmanna mánaðarleg. Þannig geta flokksmenn valið að greiða ekkert eða lagt inn upphæð, allt að 400 þúsund krónum, á ári. Framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar segir aldrei lagt mikið upp úr því að rukka gjaldið enda sé um frjáls framlög að ræða.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst eru engin flokksgjöld rukkuð hjá Viðreisn.

Í Sjálfstæðisflokknum sjá kjör­dæma­ráð og önnur félög flokksins um að rukka inn félagsgjöld. Þau nema frá 1.500 krónum til 2.500 króna. Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri flokksins, segir að innan við helmingur félaga flokksins leggi á félagsgjald.

„Þú getur í prinsippinu verið aðili að mörgum félögum en þú ert aldrei þvingaður til að greiða í nema eitt félag. Sumir borga kannski í tvö en ég held að það sé fátítt.“



Ekki náðist tali af Einari Gunnari Einarssyni, framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins, en eftir því sem næst verður komist eru ekki rukkuð félagsgjöld hjá flokknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×