Erlent

Comey hélt að brottreksturinn væri hrekkur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
James Comey, fyrrverandi yfirmaður FBI.
James Comey, fyrrverandi yfirmaður FBI. Vísir/AFP
James Comey, sem rekinn var sem yfirmaður FBI, bandarísku alríkislögreglunnar, í gær af Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hélt í fyrstu að fregnir af brottrekstrinum væri hrekkur. Hann var staddur í Los Angeles þegar fregnirnar bárust honum.

New York Times greinir frá og segir að Comey hafi verið að ávarpa hóp starfsmanna FBI í Los Angeles þegar honum varð litið á sjónvarpsskjá. Í sjónvarpinu var verið að segja frá því að Trump hefði rekið Comey og voru fyrstu viðbrögð Comey að fara að hlæja.

„Hr. Comey hló og sagði að þetta væri góður hrekkur,“ segir í frétt New York Times. Við þetta fór starfslið hans á fullt og fór inn í nærliggjandi skrifstofu, ásamt Comey. Þar fékk Comey staðfestingu á því að hann hafði í raun og veru verið rekinn. Stuttu seinna barst svo uppsagnarbréfið frá skrifstofu Trump.

Hvíta húsið segir Comey meðal annars hafa verið rekinn vegna þess hvernig hann meðhöndlaði rannsókn FBI á tölvupóstum Hillary Clinton. FBI er hins vegar með starfsmenn forsetaframboðs Donald Trump til rannsóknar vegna mögulegs samstarfs þeirra við yfirvöld í Rússlandi við að reyna að hafa áhrif á forsetakosningarnar í fyrra.

Eftir brottrekstur Comey hafa raddir sem kalla eftir því að skipaður verði sérstakur rannsakandi til þess að rannsaka mögulega afskipti Rússa af forsetakosningunum orðið háværari. Meðal þeirra sem hafa tekið undir það er repúblikaninn John McCain sem segir að sérstök þingnefnd þurfi að rannsaka málið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×