Skoðun

Kaupmáttur öryrkja

Þorsteinn Víglundsson skrifar
Vegna fullyrðinga formanns ÖBÍ um meint ranghermi mín, sem koma fram í grein í Fréttablaðinu 22. júní, þykir mér rétt að eftirfarandi komi fram.

Síðustu ár hefur verið unnið að því á vettvangi stjórnmála og á almennum vinnumarkaði að hækka kaupmátt lægstu tekjuhópa í samfélaginu. Þeirri stefnu er haldið áfram af þeim sem nú eru við stjórnvölinn í þessum málaflokki.

Í byrjun þessa árs hækkuðu bæði lægstu bætur og lægstu laun í sömu tölu, 280 þúsund kr. Þessar tölur hafa ekki alltaf haldist að, sem dæmi má nefna að 2009 voru lægstu laun umtalsvert lægri en lágmarks framfærsluviðmið. Sé miðað við árið 2009 sem upphafspunkt, líkt og formaður ÖBÍ gerir í grein sinni, má sjá á meðfylgjandi mynd að aukning kaupmáttar öryrkja hefur haldið í við og raunar verið meiri en aukning kaupmáttar lægstu launa og upp á síðkastið hefur kaupmáttaraukning lágmarks framfærsluviðmiðs örorkubóta tekið fram úr launavísitölu í landinu.

Í umræðum um fátækt á Alþingi, þann 16. maí síðastliðinn, sagði ég:

„Kaupmáttur hefur aukist verulega á undanförnum árum. Kaupmáttur lægstu launa hefur aukist umfram almennan kaupmátt og hefur kaupmáttur bóta að sama skapi fylgt lægstu launum að undanförnu. Markmiðið er að um næstu áramót hækki lágmarksfjárhæðir eða lágmarkstekjutryggingar bæði ellilífeyris og örorkulífeyris í 300 þús. kr. eins og lágmarkslaun á vinnumarkaði. Það skiptir allt saman gríðarlega miklu máli í því að bæta stöðu þessa fátækasta hóps.“

Við þessi orð stend ég, hvort sem litið er til þróunar á undanförnum árum, eða litið til framtíðar. Loforð er loforð.


Tengdar fréttir

Fullyrðingar ráðherra um kjör öryrkja standast ekki skoðun

Í umræðum á Alþingi 16. maí sl. um aðgerðir gegn fátækt kom Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, með tvær fullyrðingar um kjör örorkulífeyrisþega, sem því miður verða að teljast rangfærslur.




Skoðun

Sjá meira


×