Handbolti

FH áfram í Evrópu eftir sigur | Mosfellingar úr leik

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson er fyrirliði FH.
Ásbjörn Friðriksson er fyrirliði FH. vísir/ernir
FH-ingar komust áfram í undankeppni EHF-bikarsins í dag en Afturelding féll á sama tíma úr leik gegn norska liðinu Baekkelaget eftir tap ytra. Valsmenn unnu heimaleik sinn örugglega með sjö mörkum.

FH-ingar unnu fyrri leik liðanna með þremur mörkum, 30-27 og náðu snemma forskotinu í dag og leiddu með fjórum mörkum í hálfleik 15-11.

Var sigurinn í raun aldrei í hættu í dag en FH vann að lokum sex marka sigur og komst örugglega áfram 61-52 í einvíginu. FH mætir rússneska félaginu Saint Petersburg HC í næstu umferð.

Í Noregi féll Afturelding úr leik en Baekkelaget vann einnig leik liðanna í Mosfellsbænum 26-25 á dögunum og þurftu Mosfellingar því að vinna leikinn með tveimur mörkum eða meira.

Staðan var góð fyrir Aftureldingu í hálfleik sem leiddi 16-10 en í seinni hálfleik fór hinsvegar allt á annan endann og fór svo að norska liðið fagnaði tveggja marka sigri og um leið þriggja marka sigri í einvíginu.

Á Hlíðarenda voru það Valsmenn sem fóru alla leiðina í undanúrslitin í þessari keppni í fyrra sem fögnuðu öruggum sigri 34-27.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×