Umfjöllun, viðtöl og myndir: Haukar - Valur 24-25 | Haukar nálægt endurkomusigri gegn Val

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hildur Björnsdóttir skorar eitt sex marka sinna.
Hildur Björnsdóttir skorar eitt sex marka sinna. vísir/ernir
Valur er komið á blað í Olísdeild kvenna eftir sigur á Haukum á Ásvöllum en það stóð tæpt. Valur vann eins marks sigur eftir að hafa verið með sex marka forystu í hálfleik 17-11.

Gestirnir frá Hlíðarenda spiluðu frábærlega í síðari hálfleik og framliggjandi vörn Hauka réði ekkert við sóknarleik Vals, sérstaklega línuspilið. Það eina sem Val vantaði var betri markvarsla en með henni hefði staða liðsins verið enn betri.

Það var mikill viðsnúningur í síðari hálfleik eftir að Haukar náðu að þétta vörn sína. Valskonur þreyttust við þetta og eftir 42 mínútur var staðan jöfn, 19-19. En þá fóru heimamenn illa að ráði sínu, klúðruðu vítaskoti og mistókst að nýta sér yfirtölu í tvígang.

Valur gekk á lagið á lokamínútunum og var með fjögurra marka forystu þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka, 25-21. Haukar náðu að hleypa smá spennu í lokin en tíminn reyndist of naumur fyrir þær Hafnfirsku.

Af hverju vann Valur?

Valskonur fóru langt á frábærum sóknarleik í fyrri hálfleik þar sem liðið sundurspilaði vörn Haukanna hvað eftir annað. Haukar fengu sannarlega tækifæri til að taka leikinn yfir í síðari hálfleik en gripu ekki tækifærið þegar það gafst.

Hverjir stóðu upp úr?

Hildur Björnsdóttir átti góðan leik á línunni hjá Val og skoraði sex mörk. Kristín Arndís Ólasfdóttir nýtti líka öll fimm vítaskotin sín. Guðrún Erla Bjarndóttir var öflug í liði Hauka með sjö mörk úr átta skotum.

Hvað gekk illa?

Markvarslan var ekki góð hjá liðunum í kvöld, sérstaklega Val. Chantel Pagel varði aðeins tvö af 20 skotum sem hún fékk á sig en Emelía Dögg Sigmarsdóttir átti ágæta innkomu og varði þrjú af níu skotum sem hún fékk á sig. Markverðir Hauka vörðu samtals tólf skot í kvöld (Elín 7, Tinna 5). Sem fyrr segir var varnarleikur Hauka í fyrri háfleik ekki góður, né heldur sóknarleikurinn þegar mest á reyndi í þeim síðari.

Hvað gerist næst?

Sigur Vals var dýrmætur þar sem þessi lið eru líkleg til að berjast um fjórða sætið í deildinni - það síðasta sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni. Valur á næst leik gegn ÍBV á útivelli en Haukar fara í heimsókn til Gróttu.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari 365, var á vellinum og tók myndirnar sem má sjá neðst í fréttinni.

Ágúst: Sá þykki þolir ekki svona spennu í hverjum leik
Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals.Vísir/Ernir
Valur vann í kvöld nauman sigur á Haukum, 25-24, í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna en Hlíðarendaliðið var með sex marka forystu eftir fyrri hálfleikinn.

„Fyrri hálfleikur var frábær. Við spiluðum góða vörn og náðum að opna þær í nánast hverri sókn,“ sagði Ágúst við Vísi eftir leikinn í kvöld.

„En við vorum slakar í síðari hálfleik og fórum líka illa að ráði okkar einum fleiri. Þess vegna kom þessi spenna í lokin en við héldum þetta sem betur fer út,“ bætti hann við.

Ágúst hrósaði liði sínu fyrir góða skapgerð og sterka liðsheild, en einnig fyrir góða frammistöðu í fyrri hálfleik.

„Það var mjög góð holning á liðinu þá. Ég hefði reyndar viljað sjá betri markvörslu í leiknum öllum. Við gerðum margt gott en það er líka margt sem við þurfum að laga - sá þykki þolir ekki svona spennu í hverjum leik og þetta þarf því að vera betra,“ sagði kófsveittur en brosandi þjálfari Vals.

Elías Már: Vorum fjandi nálægt því
Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka.Vísir/Ernir
Elías Már Halldórsson var nálægt því að stýra Hauka til sigurs í fyrsta leik sínum sem þjálfari liðsins, en Haukar töpuðu fyrir Val í kvöld, 25-24.

„Seinni hálfleikur var frábær, sérsatklega varnarleikurinn. En úr því sem komið var reyndist þetta erfitt fyrir okkur. Við spiluðum illa í fyrri hálfleik og varnarleikurinn var sérstaklega slæmur,“ sagði þjálfari Hauka.

Elías sagðist hafa gert mistök með varnaruppstillingu sinni í fyrri hálfleik. „Við ætluðum að mæta þeim of framarlega og ég hefði þurft að bakka aftur að teignum aðeins fyrr. En við vorum fjandi nálægt því og við höfðum allan möguleika á að vinna þennan leik.“

Hann segir að það hafi verið margt slæmt við varnarleik Hauka í fyrri hálfleik sem færði Val mark í nánast hverri sókn.

„Við fengum á okkur fjögur vítaköst og línumennirnir voru í dauðafærum allan fyrri hálfleikinn. Við náðum að loka á það í síðari hálfleik og þá fannst mér Valsliðið sprungið.“

Elías segir að Haukar hafi líka farið illa að ráði sínu þegar liðið komst í yfirtölu í síðari hálfleik og hafði tækifæri til að ná undirtökunum í leiknum.

„Það er dýrt í jöfnum leikjum að nýta það ekki þegar við erum sex á móti fimm. Það er eitthvað sem við þurfum að gera betur. En ég er ánægðru með seinni hálfleikinn og við sýndum mikla baráttu með að koma til baka eftir að hafa lent sex mörkum undir.“

„Við þurfum þó að laga hvernig við spilum í yfirtölu og við eigum heilt yfir langt í land með sóknarleikinn. Það er eitthvað sem við þurfum að vinna í.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira