Innlent

Þingfundi ítrekað frestað

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ljóst er að þingfundur gæti dregist ansi langt fram á nótt ef ljúka á þingstörfum fyrir morgundaginn.
Ljóst er að þingfundur gæti dregist ansi langt fram á nótt ef ljúka á þingstörfum fyrir morgundaginn. Vísir/Vilhelm
Þingfundi var frestað rétt fyrir klukkan 19 í kvöld og átti honum að vera framhaldið klukkan 21. Þá steig Steingrímur J. Sigfússon, fyrsti varaforseti þingsins, í pontu og frestaði fundinum til klukkan 21:30.

Þegar fundurinn átti að halda áfram nú klukkan hálf tíu steig Steingrímur aftur í pontu og tilkynnti að fundinum væri frestað um minnst hálfa klukkustund til viðbótar, eða til klukkan 22.

Stefnt er að því að Alþingi ljúki störfum í dag og á enn eftir að afgreiða frumvarp um breytingar á útlendingalögum sem tryggja eiga rétt barna sem eru hælisleitendur til að vera áfram á Íslandi. Frumvarpið er hins vegar með takmarkaðan gildistíma og því þarf nýtt þing að taka málið fyrir þegar það kemur saman til að gera varanlegar breytingar á útlendingalögunum.

Þá á einnig eftir að afgreiða frumvarp um afnám ákvæða í lögum um uppreist æru. Málin tvö þurfa að fara í gengum þrjár umræður og hljóta afgreiðslur í nefndum áður en þau verða að lögum en þau hafa einungis farið í gegnum fyrstu umræðu. Ljóst er því að þingfundur gæti dregist ansi langt fram á nótt ef ljúka á þingstörfum fyrir morgundaginn.

Tillaga Pírata um að breytingar yrðu gerðar á dagskrá þingfundar svo taka mætti fyrir frumvarp þeirra til stjórnarskipunarlaga er varðar breytingu á stjórnarskránni var hins vegar felld við upphaf þingfundar í dag. Ansi hart var tekist á um tillöguna á Alþingi og létu nokkrir þingmenn þung orð falla.


Tengdar fréttir

Reiknað með að síðasti þingfundur fyrir kosningar verði langur

Stefnt er að því að Alþingi ljúki störfum í dag og dregst þingfundur væntanlega fram á kvöld. Þrjár umræður þurfa að eiga sér stað um þrjú frumvörp og Píratar og Samfylkingin munu reyna að fá stjórnarskrána setta á dagskrá fundarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×