Handbolti

Tía Hreiðars Levý dugði ekki til sigurs: „Hann á svo mörg líf í boltanum“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hreiðar Levý Guðmundsson, markvörður Gróttu í Olís-deild karla í handbolta, fór á kostum í leik liðsins á móti Stjörnunni í fimmtu umferð deildarinnar.

Landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi hélt Gróttu á floti í leiknum með 23 vörðum skotum og 49 prósent hlutfallsmarkvörslu. Hann fékk tíu í heildareinkunn fyrir frammistöðu sína hjá HB Statz.

Því miður dugði frammistaða hans ekki til sigurs því Stjarnan vann með einu marki. Grótta er enn í leit að fyrsta sigrinum en liðið er á botni deildarinnar.

„Hann er væntanlega með næst bestu tölfræðina af öllum sem eru að spila hérna heima. Mér finnst hann eiga svo mörg líf. Hann var einhvernveginn að deyja í þessu en nú er hann kominn aftur,“ sagði Gunnar Berg Viktorsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, í þættinum á þriðjudagskvöldið.

Það er svo sannarlega rétt hjá Gunnari því Hreiðar er í öðru sæti á styrkleikalista HB Statz með einkunn upp á 8,52 en efstur er Björgvin Páll Gústavsson með 9,36.

Nú styttist í Evrópumótið og hlýtur Hreiðar að gera tilkall til endurkomu í landsliðið miðað við hvernig hann er að spila, eða hvað? Jóhann Gunnar Einarsson er allvega ánægður með metnaðinn í markverðinum.

„Hann er byrjaður að að vinna sem fasteignasali og maður hélt að metnaðurinn væri ekki alveg í handboltanum en svo heyrði maður eitthvað viðtal og hann er alveg klár,“ sagði Jóhann Gunnar.

Umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×