Handbolti

Munu Haukarnir missa Daníel í janúar? „Hann er að gera meira en Janus Daði í fyrra“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Erfitt er að mótmæla því að Daníel Þór Ingason, skytta Hauka í Olís-deild karla, sé búinn að vera besti útispilari mótsins það sem af er vetri.

Af nokkrum mjög góðum er Daníel að spila stórkostlega en hann er að skora 7,2 mörk að meðaltali í leik með 61 prósent skotnýtingu, gefa tvær stoðsendingar að meðtali, stela einum bolta og spila vörnina eins og kóngur með 6,6 löglegar stöðvanir að meðaltali í leik.

Enn eina ferðina var hann tekinn fyrir í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi enda ekkert annað hægt. „Getum við ekki sleppt því að sýna þetta. Þetta er náttúrlega ekki hægt. Gæinn er rugl. Þetta er alveg eins og í síðasta leik og hina fjóra á undan,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson, sérfræðingur þáttarins, léttur í bragði.

„Hann var góður í sóknarleiknum en í varnarleiknum var hann ótrúlega góður. Hann spilar þristinn en er sá sem fer út í menn á meðan hinir hafa það náðugt fyrir aftan.“

Haukarnir urðu fyrir áfalli á síðustu leiktíð þegar að leikstjórnandinn Janus Daði Smárason yfirgaf liðið á miðju tímabili og gekk í raðir Álaborgar í Danmörku. Aron Kristjánsson, fyrrverandi þjálfari Hauka, hirti þar besta manninn af Haukunum sem féllu svo úr leik í átta liða úrslitum mótsins.

„Daníel er að gera meira [en Janus í fyrra]. Miðað við leikmennina sem hann er með við hliðina á sér er hann að gera allt. Ég myndi taka hann úr umferð í hvert einasta skipti og sjá hvað hinir gera,“ sagði Gunnar Berg Viktorson og Jóhann Gunnar tók undir:

„Daníel er langbestur í Haukaliðinu eins og er þannig Haukarnir mega ekki missa hann og fara að byrja upp á nýtt. Ég er ekki alveg nógu hrifinn af þessu, menn eiga bara að fara þegar að tímabilið er búið,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson.

Alla umræðuna má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×