Handbolti

Rakel Dögg í pásu: Lífið nær lengra en fram yfir næsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir.
Rakel Dögg Bragadóttir. Vísir/Ernir
Stjörnukonan Rakel Dögg Bragadóttir lék ekki með Garðabæjarliðinu í síðasta leik liðsins í Olís-deild kvenna þar sem Stjarnan tapaði á móti ÍBV úti í Eyjum. Þá er óvist hvenær hún byrjar aftur að spila.

Rakel Dögg var á skýrslu í leiknum en kom ekkert við sögu. Hún er að jafna sig eftir að hafa dottið á hnakkann í leik Stjörnunnar og Gróttu fyrir níu dögum síðan.

Rakel hefur áður fengið slæmt höfuðhögg sem varð á endanum til þess að hún hætti í handbolta um tíma. Hún byrjaði hinsvegar aftur að spila en ætlar ekki að taka neina áhættu að þessu sinni.

Rakel segist í viðtali við Ívar Benediktsson í Morgunblaðinu í dag að henni hafi liðið illa eftir leikinn en fór síðan á æfingu seinna í vikunni þegar henni fór að líða betur.

„Á æfingunni kom skýrt í ljós að ég á nokkuð í land og því verð ég að taka lífinu með ró áfram,“ sagði Rakel Dögg í viðtalinu við Ívar.

Rakel Dögg Bragadóttir var búin að skora 24 mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum með Stjörnunni í Olís-deildinni, sex mörk í leik, og það munar mikið um hana.

„Það er óvíst hvenær ég mæti til leiks á nýjan leik. Heilsan til framtíðar skiptir mestu máli og lífið nær lengra en fram yfir næsta leik þótt manni þyki á stundum annað,“ sagði Rakel ennfremur.

Stjörnuliðið hefur aðeins unnið 2 af fyrstu 6 leikjum tímabilsins og situr eins og er í fimmta sæti eða utan úrslitakeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×