Skoðun

Ný stjórnmál

Helgi Hrafn Gunnarsson skrifar
Kosningaloforðum fylgir ákveðin mótsögn. Á einn háttinn er linnulaus eftirspurn eftir þeim. Á hinn bóginn vitum við öll að flokkar „svíkja“ þau yfirleitt, eða öllu heldur, mistekst að uppfylla þau. Samt er sífellt krafist fleiri kosningaloforða, sérstaklega í risavöxnu, flóknu málaflokkunum sem krefjast yfirlegu og raunsæis.

Allir flokkar kannast við kröfur um já/nei svör við flóknum spurningum og galdralausnir á samfélagsins stærstu vandamálum. Flottastir þykja flokkarnir sem veita einföldustu svörin, því þau teljast skýrust. En einföldustu svörin eru einmitt þau hættulegustu vegna þess að þau taka ekki tillit til tveggja staðreynda: Mikilvægustu vandamálin eru jafnan þau flóknustu og enginn einn flokkur ræður einn að loknum kosningum.

En það þarf auðvitað að spyrja og fá svör, þannig að hvað er til ráða?

Í fyrsta lagi þurfa flokkar að gera heimavinnuna sína. Það kostar þá tíma, vinnu og glerhart, stundum sársaukafullt raunsæi. Það er ábyrgð sem skortir nær algerlega í íslenskum kosningabaráttum.

En þeir þurfa líka að geta rætt tillögur sínar og hugmyndir án þess að þær séu sjálfkrafa túlkaðar sem einhvers konar „loforð“. Flokkar þekkja ekki framtíðina fyrirfram og atkvæði gera ekki frambjóðendur almáttuga. Mun ábyrgara er að flokkar bjóði fram áætlanir og sýni með gögnum hvernig þær standist, þannig að þeir þurfi einfaldlega ekki afsakanir fyrir aðgerðaleysi seinna meir.

Áherslur Pírata eru það; áherslur. Í stað þess að treysta á góðar afsakanir fyrir því að geta svikið loforð með góðri samvisku seinna meir, búum við frekar undir okkar áherslur með því að gera þær einfaldlega sem raunhæfastar og sem opnastar fyrir gagnrýni og samstarfi við aðra. Þetta gerum við með því að birta opinberlega áætlanir okkar um fjármögnun áherslna okkar.

Við vonum að kjósendur kunni að meta þessa tilraun og taki þátt í henni með því að ljá okkur atkvæði sitt í komandi kosningum.

 

Höfundur er í 1. sæti Pírata í Reykjavík suður.




Skoðun

Sjá meira


×