Í ræðu sinni beindi Donald Trump orðum sínum beint að norður-kóreska leiðtoganum Kim Jong-un er hann sagði að „vopnin sem þú ert að sanka að þér munu ekki auka öryggi þitt,“ um leið og hann hvatti aðrar þjóðir til að stöðva vopnabröltið hans.
„Þeir eru að setja stjórn þína í mikla hættu,“ sagði Trump, án þess þó að skýra nánar við hverja hann ætti. „Hvert einasta skref sem þú fetar niður þennan myrka stíg eykur hættuna sem þú stendur frammi fyrir.“
Engu að síður ítrekaði Trump að hann væri tilbúinn að setjast niður með Kim Jong-un og ná samkomulagið um framhaldið. „Þrátt fyrir alla glæpina sem þú hefur framið [...] munum við bjóða þér leið í átt að bjartari framtíð.“
Sjá einnig: Hvetur Norður-Kóreu til viðræðna
Eins og Vísir hefur áður greint frá er Bandaríkjaforseti nú á faraldsfæti um Asíu og hefur áður átt fundi með stjórnvöldum í Japan. Næst liggur leið hans til Kína þar sem búast má við að fríverslun og kjarnorkutilraunir Norður-Kóreu verði í brennidepli.
Fátt annað hefur í raun komist að hjá Trump í ferðinni. Hefur hann ítrekað beint spjótum sínum að Pjongjang og viðskiptasamningunum sem forverar hans í forsetaembætti gerðu við hin ýmsu ríki Suðaustur-Asíu.