Handbolti

Elías: Líðan Þórhildar skiptir meira máli en handbolti

Viktor Örn Guðmundsson skrifar
Þórhildur Braga Þórðardóttir.
Þórhildur Braga Þórðardóttir. Vísir/Stefán
„Líðan Þórhildar skiptir meira máli en handbolti,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Hauka, eftir sigur þeirra gegn ÍBV í kvöld.

Seinni hálfleikurinn fór heldur óskemmtilega á stað því á 33. mínútu meiddist leikmaður Hauka, Þórhildur Braga Þórðardóttir, alvarlega. Leikurinn var stöðvaður í tæplega 40 mínútur á meðan beðið var eftir sjúkraflutningabíl.

Sjúkraþjálfarar gátu ekki hreyft við Þórhildi sökum meiðslanna sem hún varð fyrir en svo virðist sem hnéð á leikmanni ÍBV hafi farið harkalega í hálsinn eða hnakkann á Þórhildi.

„Sjúkraþjálfarar beggja liða vildu ekki taka neinn séns. Þeir ætluðu að rétta hana við en þá fékk hún sting upp í haus og ákveðið var að taka enga sénsa með þetta. Ég ætla bara rétt að vona það besta fyrir hana en við vitum ekki alveg hver staðan er á henni akkúrat núna. Við verðum bara að vona það besta,“ sagði Elías þegar hann var spurður út í meiðsli og líðan Þórhildar Brögu.

Þetta var gríðarlega öflugur og sannfærandi sigur Hauka í kvöld en hvað var það sem skóp þennan sigur?

„Í rauninni framhald af Framleiknum. Við erum að spila gríðarlega góða vörn og erum með góða markvörslu. Það var góð stemming í hópnum og það hjálpar til þegar andinn og liðsheildin er svona,“ sagði Elías.

„Við erum bara að bæta okkur leik frá leik og það er vörn og markvarsla sem er að skila þessu ásamt góðum sóknarleik sem er að slípast betur og betur saman. Ég er sérstaklega ánægður með stelpurnar í kvöld,“ sagði Elías.

„Þetta er líklegast lengsti handboltaleikur sem ég hef tekið þátt í og það hefðu örugglega mörg lið brotnað. Við héldum áfram, lokuðum vörninni og Elín var frábær í markinu. Það sýnir bara hversu mikill karakter býr í þessu liði að ná að klára þetta,“ sagði Elías.

„Mér lýst mjög vel á næsta leik á móti Val á móti sterkasta liðinu í deildinni í dag sem er taplaust. Þetta verður bara mjög skemmtilegt verkefni og við förum bara í þann leik til að vinna eins og alla aðra,“ sagði Elías.


Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: Haukar - ÍBV 26-22 | Fjórði sigur Haukakvenna í röð

Haukakonur héldu áfram sigurgöngu sinni í Olís-deild kvenna í kvöld þegar þær unnu fjögurra marka sigur á ÍBV, 26-22, á Ásvöllum. Elín Jóna Þorsteinsdóttir átti stórleik í marki Hauka. Haukar fóru fyrir vikið upp fyrir ÍBV-iðið og í annað sæti deildarinnar en þetta var fjórði sigur liðsins í röð í deildinni. 40 mínútna töf varð á leiknum vegna meiðsla eins leikmanns Hauka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×