Handbolti

Patrekur: Alltaf gaman að koma í KA-heimilið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrekur og félagar hafa tapað tveimur leikjum í röð í Olís-deild karla.
Patrekur og félagar hafa tapað tveimur leikjum í röð í Olís-deild karla. vísir/vilhelm
Patrekur Jóhannesson fer aftur á sinn gamla heimavöll þegar Selfoss sækir KA heim í 16-liða úrslitum Coca Cola-bikars karla í desember.



Patrekur lék með KA á árunum 1994-96 og varð tvívegis bikarmeistari og einu sinni deildarmeistari með liðinu.

„Það er alltaf gaman að koma norður og koma í KA-heimilið. Ég á góðar minningar þaðan. Þetta var frábær tími, einn sá skemmtilegasti á mínum ferli sem leikmaður,“ sagði Patrekur í samtali við Vísi eftir að dregið var í 16-liða úrslit Coca Cola-bikarsins í dag.

KA skráði sig aftur til leiks fyrir tímabilið og situr á toppi 1. deildarinnar með fullt hús stiga eftir sjö umferðir. Patrekur segir að það sé mikið spunnið í lið KA.

„Ég veit að KA-liðið er mjög sterkt. Þetta er krefjandi en ég hlakka til að fara norður,“ sagði Patrekur.

Hann segir Selfoss ætla sér stóra hluti í bikarkeppninni á þessu tímabili.

„Við stefnum á að komast í Höllina eins og öll lið. En við vitum að við þurfum að spila vel gegn KA, þótt þeir séu í 1. deild og þannig séð nýtt lið,“ sagði Patrekur sem er meðvitaður um að stysta leiðin að stórum titli er í bikarkeppninni.

„Bikarinn er skemmtilegur. Ég hef verið það heppinn að vera í góðum liðum og unnið hann fjórum sinnum sem leikmaður og einu sinni sem þjálfari. Þetta er ekki eins og að vinna deildakeppni. Þetta er stutt leið en bikarhelgin er stór.“

Patrekur segir að hið svokallaða Final Four fyrirkomulag, bikarhelgin, hafi gert mikið fyrir bikarkeppnina.

„Ég held það. Ég kynntist þessu í Þýskalandi og þar er frábær helgi í Hamborg. Mér finnst þetta gott. Svo ertu líka með yngri flokkana þarna svo þessi helgi er mjög skemmtilegt fyrir alla,“ sagði Patrekur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×