Innlent

Páll Magnússon ósáttur við að fá ekki sæti í ríkisstjórn

Jakob Bjarnar skrifar
Páll er afar ósáttur við að vera ekki ráðherra í hinni nýju ríkisstjórn.
Páll er afar ósáttur við að vera ekki ráðherra í hinni nýju ríkisstjórn. visir/anton
Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi og 1. þingmaður þar, lýsir yfir mikilli óánægju með að fram hjá sér hafi verið gengið þegar ráðherralisti Sjálfstæðisflokksins var lagður fram nú í hádeginu.

„Í annað sinn á innan við ári hefur formaður Sjálfstæðisflokksins nú gengið framhjá Suðurkjördæmi þegar kemur að ráðherraskipan í ríkisstjórn sem flokkurinn á aðild að. Þetta gerist þrátt fyrir að kjördæmið sé annað höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins á landinu,“ segir Páll í tilkynningu á Facebooksíðu sinn.

Bjarni Benediktsson, nýr fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins var í viðtali á Vísi nú fyrir skemmstu og lýsti því þar að úr vöndu hefði verið að ráða þegar velja þurfti í ráðherrastólanna. Jón Gunnarsson fór í fússi af fundi í Valhöll þar sem flokksmönnum var greint frá því hverjir tækju sæti í nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Jón var ósáttur við að fá ekki sæti í ríkisstjórninni.

„Ég mótmælti því harðlega í samtali við formanninn í morgun að hlutur kjördæmisins skuli þannig vera fyrir borð borinn og tilkynnti honum að af þessari ástæðu gæti ég ekki stutt þann ráðherralista sem hann lagði fyrir þingflokkinn,“ segir Páll sem áréttar að hann hafi greitt atkvæði með stjórnarsáttmálanum og að hann styðji ríkisstjórnina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×