Handbolti

Þjálfarar Stjörnunnar sjálfir byrjaðir að skúra til að koma í veg fyrir meiðsli | Myndband

Lið Stjörnunnar í Olís-deild karla í handbolta hefur verið í miklum meiðslavandræðum að undanförnu og árangurinn eftir því en liðið er búið að tapa tveimur leikjum í röð.

Jóhann Gunnar Einarsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport, fór aðeins yfir þessi miklu meiðsli þætti í lok nóvember en hann fór að spyrja sig hvort eitthvað væri að þjálfuninni. Svo var ekki.

„Ég heyrði í leikmönnum. Það er víst ekki verið að þrífa gólfið í Garðabænum og menn eru ekki sáttir,“ sagði hann.

„Gólfið er bara sleipt og það er slysahætta. Leikmenn eru verulega ósáttir við þetta og þegar staðan er svona þá er gólfið stórhættulegt. Það er ekki eðlilegt að sex byrjunarliðsmenn séu meiddir eða hnjaskaðir,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson. Þá umræðu má sjá í spilaranum hér að ofan.

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, og Vilhjálmur Halldórsson, aðstoðarþjálfari sem þurfti að rífa fram skóna á dögunum vegna meiðslavandræðanna, eru greinilega búnir að fá nóg af þessum meiðslum.

Þeir rifu því fram kústinn á æfingu liðsins í gærkvöldi og sópuðu mesta draslið af gólfinu í Mýrinni sjálfir enda væntanlega alveg til í að menn haldist heilir í harðri baráttu Olís-deildarinnar.

Lárus Gunnarsson, markvörður Stjörnunnar, tók skemmtilegt myndband af þeim félögum og birti það á Twitter-síðu sinni. „Þjálfarar Stjörnunnar sjálfir byrjaðir að skúra til að koma í veg fyrir meiðsli,“ skrifaði hann við færsluna.

Það er vonandi að gæði þjálfaranna með kústinn haldi leikmönnum frá meiðslum en Stjarnan mætir Fram, reyndar á útivelli, á mánudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×