Dagskrá bandaríska utanríkisráðherrans Rex Tillerson er þétt þar sem hann mun sækja fjölda funda í Evrópu næstu dagana. Tillerson kemur til Brussel í dag.
Utanríkisráðherrann hefur mikið verið í fréttum í fjölmiðlum síðustu dagana eftir að New York Times greindi frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti ætli sér að reka Tillerson og skipa Mike Pompeo, yfirmann leyniþjónustunnar CIA, í hans stað í embætti utanríkisráðherra. Trump hefur sjálfur neitað fréttunum.
Ferð Tillerson til Evrópu hefst á fundum í höfuðstöðvum NATO og stofnunum Evrópusambandsins á þriðjudag og miðvikudag. Að þeim loknum heldur Tillerson til Vínar á fund Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Gert er ráð fyrir að hann muni eiga þar tvíhliða fund með rússneskum starfsbróður sínum, Sergei Lavrov.
Tillerson mun einnig eiga fundi í frönsku höfuðborginni París áður en hann leggur leið sína aftur heim til Bandaríkjanna.
Á fundunum verða öryggismál í brennidepli, meðal annars málefni Norður-Kóreu og ástandið í Úkraínu.
