Handbolti

Auðveldara að einbeita sér eftir að konan var farin á fæðingadeildina

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Handboltaparið Finnur Ingi Stefánsson og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir eignuðust sitt annað barn á dögunum. Fæðingin fór af stað þegar Finnur var að eiga stórleik í eina sigri Gróttu á tímabilinu.

„Hún [einbeitingin] var eiginlega betri eftir að hún fór. Ég vissi af henni og að það var eitthvað að fara að gerast fyrir leikinn þannig að ég var svolítið tæpur að einbeita mér fyrir leik og í fyrri hálfleik var ég alltaf að leita að henni í stúkunni. En svo þegar ég vissi að hún var farin, þá vissi ég hvað stefndi í og gat einbeitt mér bara að leiknum,“ sagði Finnur Ingi í viðtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Anna Úrsúla sagðist hafa skellt sér á leikinn, en fundið svo að það væri orðið stutt í strákinn svo hún rölti til Finns í hálfleik og sagðist vera farin upp á fæðingadeild.

„Þetta gekk mjög vel, ég sagði honum að vinna leikinn og hann gerði það. [...] Svo var voða fyndið að vera að bíða eftir honum og fylgjast með beinni lýsingu og hann skorar og skorar, þetta á greinilega vel við hann,“ sagði Anna Úrsúla.

Hún á að baki 101 landsleik fyrir Ísland, en handboltaskórnir eru uppi á hillu eins og er.

„Þegar þjálfararnir eru að hringja í mig þá er það meira „hvert ætlaru að fara?“ en ekki hvort ég ætli að koma aftur.“

Skór Finns Inga eru einnig lítið notaðir þessa dagana, þó þeir séu ekki komnir alla leið uppi á hillu, en hann meiddist í leik Gróttu og Fjölnis á dögunum þegar gömul meiðsli í hásin tóku sig upp að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×